Íþróttir

Jón Halldór brattur fyrir komandi leiktíð
Mánudagur 21. september 2020 kl. 07:55

Jón Halldór brattur fyrir komandi leiktíð

Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari Domino’s deildar Keflavíkur í körfubolta kvenna er bjartsýnn á komandi leiktíð og afar ánægður með unga leikmenn sem eru komnir í hópinn úr yngri flokkum félagsins.

Þóranna Kika Hodge-Carr, einn af bestu leikmönnum liðsins á síðustu leiktíð er farinn í skóla í útlöndum og mun því ekki leika með liðinu í vetur. Hún bætist í hóp sterkra leikmanna sem hafa farið utan á síðustu árum. Hann segist þó hvergi banginn þar sem þrjár ungar stúlkur sem séu komnar í hópinn séu allar gríðarlega efnilegar og þá hafi Erna Hákonardóttir einnig snúið til baka.

„Það kemur alltaf maður í manns stað en þetta er alltaf púsluspil. Ég hef aldrei hlustað á þessa spá fyrir leiktíðina,“ segir Jón Halldór í viðtali við Karfan.is. Jón Halldór var brattur að venju og segist hlakka til hverrar æfingar með frábærum leikmönnum og þjálfarateymi liðsins. Keflvíkingum er spáð 3. sæti í deildinni í vetur.