Íþróttir

Íslandsmeistarinn í pílu mætir heimsmeistaranum í dag
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 10. júní 2022 kl. 14:56

Íslandsmeistarinn í pílu mætir heimsmeistaranum í dag

Matthías Örn Friðriksson, Íslandsmeistari úr Pílufélagi Grindavíkur, keppir í kvöld á stóra sviðinu þegar hann mætir ríkjandi heimsmeistara, hinum skoska og skrautlega Peter „Snakebite“ Wright, á Nordic Darts Masters pílumótinu. Þetta er án efa stærsti píluviðburður íslenskrar pílusögu og stórkostlegt tækifæri fyrir Matthías sem hefur verið á mikilli uppleið síðustu ár í greininni.

Matthías, sem lék knattspyrnu með Grindavík, hefur einbeitt sér að pílukasti undanfarin ár og sýnt mikla færni á því sviði. Hann er Íslandmeistari síðustu þriggja ára og sýnir stöðugar framfarir.

Pétur Rúðrik Guðmundsson, formaður Pílufélags Grindavíkur, segir að um sé að ræða stórkostlegt tækifæri fyrir íslenska pílu. „Matti hefur lagt hart að sér síðustu ár, er þrefaldur Íslandsmeistari, og nú er hann að uppskera eins og hann hefur sáð,“ segir Pétur um félaga sinn.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Matthías vann sér keppnisrétt á Nordic Darts Masters með góðum árangri á Nordic & Baltic Pro Tour en það verður áhugavert að fylgjast með Grindvíkingnum gegn þeim besta. Leikurinn hefst klukkan 17:00 í dag og verður sýndur á Viaplay.is