Lyfta.is
Lyfta.is

Íþróttir

Íhugaði að hætta
Klúbbmeistarinn með meistarabikarinn og hluta skósafnsins, FootJoy-hlutann. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 16. júlí 2022 kl. 07:18

Íhugaði að hætta

Guðmundur Rúnar Hallgrímsson, afrekskylfingur í Golfklúbbi Suðurnesja, tryggði sér klúbbmeistaratitilinn í ellefta sinn þegar meistaramóti GS lauk um síðustu helgi en Rúnar safnar ekki aðeins meistaratitlum eins og kemur fram í viðtali sem Víkurfréttir tóku við hann eftir meistaramótið.

Guðmundur Rúnar er nú aðeins einum titli frá því að jafna met það sem stórkylfingurinn Örn Ævar Hjartarson setti fyrir tíu árum síðan, tólf klúbbmeistaratitla. Rúnar er með næstflesta titlana því með þessum ellefta titli tók hann fram úr Þorbirni Kjærbo sem varð klúbbmeistari tíu sinnum á árunum 1965 til 1981.

„Þetta var næstsætasti sigurinn hingað til,“ segir Rúnar í upphafi spjallsins. „Sá fyrsti [2005] er alltaf sætastur en þessi komst ansi nálægt honum.“

Þrotlausar æfingar

„Ég var búinn að æfa vel fyrir mótið, hef verið duglegur við það síðustu ár svo sem, og gat hakað við eitt þeirra markmiða sem ég setti mér fyrir sumarið 2022. Það var að gera atlögu að klúbbmeistaratitlinum og nú er ég búinn að merkja við það í tjékkboxinu.“

Þeir sem þekkja til Guðmundar Rúnars vita að fáir æfa jafn mikið og hann. Rúnar æfir með meistaraflokki allt árið og er þess fyrir utan mjög iðinn við aukaæfingarnar.

Hefurðu tekið þátt í GSÍ-mótaröðinni í ár?

„Já, ég hef tekið þátt í öllum mótunum. Það var eitt af markmiðunum að taka þátt í öllum mótunum og komast í holukeppnina. Ég tapaði ekki leik í holukeppninni, gerði reyndar jafntefli í þeim öllum. Eini leikurinn sem sigurvegari mótsins tapaði stigi var á móti elsta keppanda mótsins – mér,“ segir Rúnar og skellir upp úr. „Hin mótin eru búin að vera allt í lagi, ekkert sérstök en alltaf meðal þrjátíu efstu.“

Núna ertu einum titli frá því að jafna met Arnar Ævars, stefnirðu á að jafna það – kannski bæta metið?

„Núna fór ég fram úr Þorbirni Kjærbo, sem er visst afrek, þannig að það er bara eitt skref eftir núna – tvö skref ef ég ætla að fara fram úr honum.

Þetta er samt fyrsta árið þar sem ég hugsaði með mér hvort það væri ekki að vera kominn tími til að hætta þessu – ekki að hætta í golfi heldur hætta þessu keppnisgolfi. Svo stendur maður með bikarinn í höndunum og þá er þetta allt þess virði. Allur tíminn sem fer í þetta, öll vinnan, er ríkulega launað þegar maður fær bikarinn í hendurnar.

Ég ætla að reyna að jafna metið sem Örn Ævar á og jafnvel bæta það. Ég er ekkert á leiðinni að hætta, kornungur maðurinn,“ segir Rúnar sem nálgast sextugsaldurinn óðfluga en hann verður 47 ára á næstu dögum.

Er ekki erfitt að standa í þessu, verandi með fjölskyldu og í fullri vinnu?

„Þetta er svolítið púsluspil en ég fæ mikinn stuðning frá fjölskyldunni og vinnuveitendum. Það er mjög þægilegt að geta hagað vinnunni þannig að maður getur fengið frí þegar þess þarf – eins líka með fjölskyldulífið, maður fær svigrúm til að „leika sér“.

Konan mín sagði mér að hún væri búin að panta ferð til Spánar fyrir fjölskylduna í sumar, ferðin var rétt fyrir meistaramótsvikuna og ég sagði að ég gæti eiginlega ekki farið þá. Hún horfði bara á mig og spurði: „Hver var að bjóða þér?“ Það er eiginlega hætt að reikna með manni yfir golftímabilið.“

Nú hefur maður heyrt að þú hafir ekki verið með þinn vanalega kylfusvein í ár, voru það ekki ákveðin viðbrigði?

„Jú og fyrir utan þrotlausar æfingar er það sennilega ástæðan fyrir að ég vann mótið í ár. Að skildi hafa slitið því samstarfi. Ég hafði ekki unnið titilinn síðan hann fór á pokann hjá mér 2019, varð síðast meistari 2018. Nú var hann önnum kafinn á Landsmóti hestamanna á Hellu og er ég þeim ævinlega þakklátur,“ segir Rúnar og hlær.

Guðmundur Rúnar ásamt Jóhanni Issa Hallgrímssyni, fyrrum kylfusveini, meðan allt lék í lyndi milli þeirra félaga. Mynd: Facebook


Golfsumarið er langt frá því að vera búið hjá Rúnari en næsta mót er Hvaleyrarbikarinn sem hefst á föstudaginn, svo verður Íslandsmót golfklúbba helgina þar á eftir og svo verður frí eina helgi („Ég hlýt að finna eitthvað golfmót þá,“ skýtur Rúnar inn í). Svo verðu Íslandsmótið í höggleik haldið í Eyjum helgina eftir verslunarmannahelgina. Hann ætlar að taka þátt í öllum þessum mótum enda má segja að hann lifi fyrir golfið.

„Ég er líka svo heppinn að vera með samning við Ísam, sem flytur inn vörumerkin Titleist og FootJoy fyrir golfið. Þeir styrkja mig með boltum, hönskum og öðrum búnaði – og svo fæ ég góðan afslátt af vörum sem eru ekki inni í samningnum. Það er mjög gott að hafa þannig bakhjarl því afreksgolf tekur mikinn tíma og allt kostar þetta peninga.“

Safnar golfskóm

Talandi um búnað, hvað áttu eiginlega orðið mörg pör af golfskóm?

„Sko!“ Nú setur Rúnar sig í stellingar. „Sko, þegar ég varð fertugur átti ég fjörutíu pör af golfskóm og þá ákvað ég að hætta þar. Svo þegar ég varð fjörutíu og eins bætti ég við einu pari. Það eru sjö ár síðan og ég er búinn að bæta við 33 pörum, þau eru orðin 73 pörin af golfskóm sem ég á. Þannig að þær áætlanir fóru út um þúfur, skósafnið er meira virði en bíllinn minn.“