Fjörheimar
Fjörheimar

Íþróttir

Húsatóftavöllur  tekur vel á móti  þeim golfþyrstu
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 8. júní 2020 kl. 13:40

Húsatóftavöllur tekur vel á móti þeim golfþyrstu

– Golfsumarið hefur farið vel af stað hjá Golfklúbbi Grindavíkur, fjölgun er í klúbbnum og aðsókn verið með besta móti. Þar á bæ eru menn bjartsýnir en á tímabili leit sumarið alls ekki vel út þegar tugir tonna af sandi og grjóti rak á land á golfvellinum í einu versta hamfaraveðri í manna minnum.

Ljósmynd: seth@golf.is
Helgi Dan Steinsson, PGA-golfkennari, tók við starfi framkvæmda- og vallarstjóra Golfklúbbs Grindavíkur í byrjun þessa árs og er óhætt að segja að hann hafi þurft að stinga sér rakleitt í djúpu laugina, Víkurfréttir tóku Helga Dan í létt spjall.

– Hvernig gengur hjá GG þessa dagana?

Það gengur virkilega vel. Völlurinn er vel sóttur og kylfingar eru almennt mjög ánægðir með völlinn okkar. Það kom sér vel fyrir okkur að geta opnað völlinn snemma í vor og dögum saman voru allir rástímar vel nýttir, sérstaklega af golfþyrstu utanbæjarfólki. Þetta fólk ætti einmitt að leita aðeins út fyrir höfuðborgarsvæðið þegar kemur að því að velja sér klúbb til að geta fengið að spila eitthvað að ráði yfir sumarið.

– Þú ert nýtekinn við sem framkvæmdastjóri, var kannski fyrsta verkefnið að takast á við afleiðingar óveðursins í febrúar?

Já, það má segja það. Veðrið skall á þegar ég hafði nýlega hafið störf hjá klúbbnum og þetta var auðvitað fyrsta stóra verkefnið. Neðri völlurinn var meira og minna undir sjó og á land ráku tugir tonna af sandi og grjóti sem þurfti að hreinsa burt. Þetta var stórt verkefni sem tókst vel þrátt fyrir að við höfum ekki verið upplitsdjarfir á tímabili. Þetta hefði sennilega ekki gengið svona vel ef ekki hefði verið fyrir aðstoð úr nærsamfélaginu en margir sjálfboðaliðar lögðu hönd á plóg og ómetanlegur stuðningur frá Grindavíkurbæ skipti sköpum.

– Völlurinn leit vissulega illa út, hver er staðan á honum núna?

Völlurinn lítur vel út og á eingöngu eftir að verða betri með sumrinu. Það má enn sjá ummerki eftir erfiðan vetur en í stóra samhenginu skiptir það litlu máli. Grasið er iðagrænt og fínt eftir rigninguna undanfarna daga.

– Nú voru gerðar breytingar á vellinum í fyrra og nýjar holur teknar í notkun. Er þeim breytingum lokið að fullu eða er það eilífðarverkefni að hirða golfvöll?

Það er að sjálfsögðu eilífðarverkefni að sinna golfvelli og alltaf nóg að gera. Engar stórar framkvæmdir eru á döfinni að svo stöddu en við þurfum að lagfæra teiga á ýmsum stöðum og fegra völlinn enn frekar eftir langt framkvæmdatímabil. Varðandi umgjörð vallarins þá vorum við að taka í notkun undirgöng undir Nesveg sem er þjóðvegurinn sem sker völlinn í sundur. Það hefur legið þungt á kylfingum að þurfa að fara tvívegis yfir þjóðveginn á hringnum og því mikil öryggisbót að fá göngin í gagnið.

– Eru komnir hvítir teigar eða eru þeir á teikniborðinu?

Þeir eru ekki komnir og ekki á döfinni á næstunni. Það væri vissulega gaman að hrinda því verkefni í framkvæmd á næstu árum því plássið er til staðar en þetta er ekki á forgangslista hjá okkur.

– Náðuð þið að halda einhver vormót og hvernig gekk það?

Það var ákveðið í ljósi aðstæðna að setja mótahald á ís og völlurinn eingöngu opnaður fyrir almennt spil. Við höfum þó haldið nokkur innanfélagsmót sem hafa verið vel sótt og slegið aðsóknarmet í hverri viku í mótin.

– Hver eru helstu markmið sumarsins og ertu bjartsýnn á komandi golftímabil?

Númer eitt, tvö og þrjú er að hafa aðkomu að velli og völlinn sjálfan snyrtilegan og bjóða fólki upp á skemmtilegan og góðan völl. Sumarið hefur farið virkilega vel af stað með blíðviðri dag eftir dag svo við hjá klúbbnum erum full bjartsýni á komandi mánuði.

Framkvæmdastjórinn hefur fengið matarást á Höllu

– Er andinn góður í félagsstarfi í klúbbnum?

Já, það er virkilega góður andi í klúbbnum og mikil stemmning. Klúbburinn er ríkur af fólki sem gefur af sér til klúbbsins og aðstoðar eftir þörfum. Það er ekki sjálfsagt og er mjög mikilvægt. Það er ný stjórn tekin við starfinu og með henni jákvæðar breytingar eins og oft vill verða. Fyrir stjórn fer Sverrir Auðunsson sem ber hag klúbbsins fyrir brjósti sem gerir hlutina þægilegri fyrir okkur hin.

Það hefur orðið gífurleg fjölgun í nýliðahópnum okkar en um fimmtíu manns hafa sótt nýliðanámskeið sem við erum með í gangi núna. Margir reyndari kylfingar hafa líka verið að koma aftur til okkar svo meðlimum hefur fjölgað um hundrað manns á síðastliðnum vikum.

– Hvaða þjónusta er í boði hjá klúbbnum?

Við bjóðum upp á alla helstu þjónustu sem aðrir klúbbar hafa líka. Ég býð uppá einka- og hópatíma í golfkennslu. Við getum leigt kylfur og tekið á móti hópum í golf og mat í skálanum í kjölfarið. Við búum svo vel að hafa hana Höllu okkar í eldhúsinu þar sem hún töfrar fram hvern dásemdarréttinn á fætur öðrum. Kökurnar hennar eru svo sannarlega heldur ekki af verri endanum og má segja að framkvæmdastjóri klúbbsins sé með mikla matarást á henni. Það er einfaldlega ekki hægt að sleppa því að koma við í skálanum hjá henni eftir hringinn. Halla er mikill happafengur fyrir klúbbinn og við vonum að hún verði með okkur sem lengst, enda fer hróður hennar víða.

– Hefur Golfklúbbur Grindavíkur inniaðstöðu – er golf heilsársíþrótt í Grindavík?

Eins og staðan er núna þá getum við ekki boðið upp á golf sem heilsársíþrótt í Grindavík, því miður. Það strandar á því að klúbburinn hefur ekki þá aðstöðu sem við þyrftum til að geta haldið úti starfi á ársgrundvelli. Okkur vantar sárlega húsnæði fyrir vélarnar okkar og innanhúss æfingaaðstöðu. Æfingasvæði klúbbsins er ekki gott en við erum með ákveðnar hugmyndir um hvernig þróunin gæti orðið hjá okkur á næstu árum. Það er hins vegar stórt verkefni, of stórt fyrir klúbbinn okkar en þetta er gerlegt með aðkomu bæjaryfirvalda sem við vonum svo sannarlega að verði raunin. Það skiptir Grindavíkurbæ auðvitað máli að hér sé blómlegt starf í golfinu því þar geta menn elst í íþróttinni. Börn geta byrjað sinn íþróttaferil hjá okkur og stundað golfið til æviloka – það er hagur bæjarins að fólk stundi hreyfingu og útivist og fái félagsskapinn sem fæst í gegnum sportið.

Viðtalið birtist í 23. tbl. Víkurfrétta og þar má sjá að auki fjölmargar ljósmyndir, m.a. af eyðileggingunni í kjölfar óveðursins í febrúar.