Íþróttir

Hörður Axel körfuknattleiksmaður ársins
Hörður Axel Vilhjálmsson úr Keflavík var valinn leikmaður ársins í Domino’s-deild karla ásamt því að vera valinn varnarmaður ársins og er í úrvalsliði deildarinnar. Myndir úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 29. júní 2021 kl. 13:03

Hörður Axel körfuknattleiksmaður ársins

Úrvaldeildirnar munu bera nýtt nafn á næsta tímabili

Verðlaunahátíð Körfuknattleikssambands Íslands fór fram í hádeginu í dag þar sem tímabili körfuknattleiksins var gert góð skil. Hörður Axel Vilhjálmsson úr Keflavík var valinn leikmaður ársins í Domino’s-deild karla ásamt því að vera valinn varnarmaður ársins og í úrvalslið deildarinnar. Besti erlendi leikmaðurinn í deildinni var Deane Williams sem einnig leikur með Keflavík.
Deane Williams er besti erlendi leikmaðurinn.
Daniella Warren Morillo, Keflavík, var valin besti erlendi leikmaður Domino’s-deildar kvenna og Chelsea Nacole Jennings sem leikur með Njarðvík var valin besti erlendi leikmaður fyrstu deildar kvenna. Þjálfari ársins í fyrstu deild kvenna var valinn Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari Njarðvíkur. Þá voru þær Vilborg Jónsdóttir úr Njarðvík og Hekla Eik Nökkvadóttir úr Grindavík valdar í úrvalslið fyrstu deildar kvenna.
Daniella Warren Morillo er besti erlendi leikmaður Domino's-deildar kvenna.
Chelsea Nacole Jennings var valin besti erlendi leikmaður fyrstu deildar kvenna.
Rúnar Ingi er þjálfari ársins í fyrstu deild kvenna.

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, sagði í ræðu sinni að nú væri lengsta keppnistímabili körfuboltamanna á Íslandi loksins lokið. „... og þegar ég segi loksins þá er það vegna þess að þetta tímabil hefur reynt verulega á alla sem að körfuboltanum koma, rétt eins og landsmenn alla.

Síðastliðið sumar var mikil eftirvænting fyrir því að hefja tímabilið 2020–2021 þar sem tímabilið á undan endaði skyndilega þegar heimsfaraldur COVID-19 setti heimsbyggðina á hliðina. Vonir og væntingar um að þetta tímabil yrði nú eðlilegt voru ekki lengi að fara út í veður og vind. Tímabilinu sem nú er lokið verður minnst fyrir mikla óvissu, þar sem löng stopp og endurræsing tímabilsins hafði mikil áhrif, ásamt öllum þeim sóttvarnarreglum sem þurfti að fylgja.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þá sagði Hannes að þakklæti og virðing væri sér efst í huga eftir tímabilið. „Að klára þetta tímabil var svo sannarlega ekki sjálfsagt – og það tók mjög á að ljúka því. Sóttvarnarumhverfið setti auknar kröfur á alla sem að leiknum komu, og þær reglur gátu breyst án fyrirvara. Allir sem að körfuboltanum koma eiga skilið innilegar þakkir fyrir ótrúlega þolinmæði við krefjandi aðstæður.“

Hannes þakkaði fjölmiðlum fyrir gott samstarf og góða vinnu. „Það eru ekki margir sem gera sér grein fyrir því hversu heppin við íþróttaáhugamenn eru að eiga þetta dugmikla einstaklinga sem fjalla um íþróttir í fjölmiðlum. Hérna á Íslandi þurfa okkar íþróttafréttamenn að vera vel að sér í flestum íþróttum og þau sem sinna þessum störfum eru að sinna vinnu sinni af ástríðu og hugsjón fyrir íþróttum. Kærar þakkir til ykkar allra sem komið að umfjöllun um körfubolta og íþróttir á Íslandi.“

Einnig kom fram í ræðu formanns að nýliðið keppnistímabil hafi verið það níunda í röð þar sem úrvalsdeildirnar báru nafn Domino’s, Domino’s-deildin. „Níu ár er langur tími í svona samstarfi en allt hefur sinn endi. Nýir eigendur Domino’s telja að nú sé rétti tíminn til að gefa úrvalsdeildum okkar nýtt nafn og því munu deildirnar bera nýtt nafn á komandi tímabili. Það verður spennandi að sjá hvað fyrirtæki mun setja nafn sitt á deildirnar okkar. Domino’s þakka ég fyrir frábært samstarf, samstarf sem hefur gefið körfuboltanum mikið en á þessum níu árum hefur körfuboltinn vaxið mikið hvernig sem á það er horft. Takk Domino’s!“