Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Heimsmeistaramót  haldið í Njarðvík
Þóra Kristín Hjaltadóttir stóð sig vel á Evrópumótinu í fyrra en hún hefur nú tekið við formennsku af Ellert. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 9. nóvember 2024 kl. 06:21

Heimsmeistaramót haldið í Njarðvík

Massi, kraftlyftingadeild Njarðvíkur, hélt glæsilegt Evrópumót á síðasta ári og hlaut mikið lof fyrir góða umgjörð og skipulag á heimsmælikvarða. Í kjölfarið var deildin beðin að halda heimsmeistaramótið í búnaði sem fer fram í Ljónagryfjunni dagana 11. til 16. nóvember.
Ellert Björn Ómarsson, gjaldkeri og fráfarandi formaður Massa, í æfingasalnum.

Ellert Björn Ómarsson, gjaldkeri og fráfarandi formaður kraftlyftingadeildarinnar, hitti Víkurfréttir í æfingaaðstöðu Massa í kjallara Ljónagryfjunnar en þar hafa staðið yfir miklar framkvæmdir í aðdraganda HM.

„Við þurftum að bæta aðstöðuna hjá okkur og rýma til fyrir fleiri tækjum en hér munu keppendur hita upp áður en átökin eiga sér stað uppi á gólfinu,“ segir Ellert en sjálfboðaliðar úr röðum Massa brutu niður veggi og fleira til að stækka lyftingasalinn. „Við eigum von á hátt á þriðja hundrað keppendum, 242 eru skráðir til leiks í mótinu og keppendur þurfa að geta gengið að góðri æfingaaðstöðu til að undirbúa sig fyrir keppni.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Félagar í Massa hafa ekki setið auðum höndum eins og sjá má. Búið að brjóta niður veggi og stækka æfingasalinn.

Byrjaði að lyfta sem unglingur

Ellert fékk snemma áhuga á kraftlyftingum en hann hafði æft fótbolta og var byrjaður að missa áhuga á honum þegar hann ákvað að fara á námskeið hjá Massa. „Ég hafði verið að lyfta með vini mínum í Perlunni, gömlu góðu, en ég var í Holtaskóla og bjó þar rétt hjá. Maður vissi ekkert hvað maður var að gera í ræktinni og svo sá ég námskeið auglýst hérna í Massa, það var kraftlyftingar fyrir byrjendur sem Stulli [Sturla Ólafsson] hélt úti og fékk nokkra aðra með sér til að halda utan um það. Við vorum kannski tíu, tólf sem sóttum þetta námskeið og af þeim hópi vorum við fjórir sem héldum áfram og fórum að keppa.

Vitandi sjálfur, eftir að hafa sett upp sambærileg námskeið, ef einn skilar sér áfram af kannski fimm manna hópi þá er það gríðarleg aukning fyrir jafn litla deild og okkar.“

Ellert var fimmtán ára þegar hann byrjaði að æfa hjá Massa um haustið 2009. Hér er hann að keppa á sínu fyrsta kraftlyftingamóti, ungliðamóti Massa í maí 2010.

Ellert segir að eins og staðan er núna þá er enginn fastur þjálfari hjá Massa sem sinnir unglingaþjálfun. Krakkar mega byrja að keppa í kraftlyftingum fjórtán ára en þau geta byrjað að æfa fyrr. Það eru nokkrir efnilegir unglingar að æfa hjá Massa en þeir eru þá að æfa með öðrum félögum í deildinni.

„Bara æfingar án lóða eru mjög góðar fyrst, að æfa hreyfiferla fyrir þessar þrjár grunnlyftur; hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu. Þetta eru sérgreinar og það þarf að æfa sömu hreyfinguna aftur og aftur.

Við viljum halda utan um þann hóp og það skiptir sérstaklega miklu máli þegar þau eru að byrja í einhverju nýju sporti að það sé góð umgjörð. Það er kannski þess vegna sem við höfum verið smá hikandi við að koma þeim af stað því að það skiptir miklu máli, það má ekki bara vera einhver sem sinni þessu og svo losni um þetta.“

Rótgróinn kjarni

Það er samheldinn hópur fólks sem stendur að baki kraftlyftingadeildarinnar Massa. Ellert keppti í kraftlyftingum frá 2011 til 2015 en var kominn í stjórn Massa árið 2013.

„Sem ungi, ferski, duglegi strákurinn,“ segir hann. „Svo héldum við Norðurlandamót hérna árið 2014 og þá má segja að áhuginn hafi kviknað fyrir þessum stjórnunarhluta frekar en keppnishlutanum. Ég var ágætur í lyftingum en ég var aldrei efni í neinn afreksmann og áttaði mig alveg á því. Mér fannst samt gaman í þessu og þetta mót þarna 2014 varð til þess að maður fann öðruvísi nálgun á lyftingarnar.

Í framhaldi af því héldum við Evrópumót í bekkpressu árið 2016 og svo fer fólk, sem hafði verið mín stoð og stytta þegar ég var að byrja í stjórn, að falla út úr starfinu. Maður var svolítið einn á báti til að byrja með en maður fékk ýmsa aðila með sér, ár í senn – en síðan hefur verið þessi gamli kjarni sem hefur haldið þessu lifandi.“

Á síðasta ári var svo haldið glæsilegt Evrópumeistaramót í Ljónagryfjunni, upphaflega hafði staðið til að halda það árið 2020 en mótinu var seinkað vegna Covid. Á því móti kepptu rúmlega eitt hundrað manns og má því segja að það mót hafi verið ágætis undirbúningur fyrir heimsmeistaramótið sem fer nú í hönd.

Sjaldan sem heimsmeistaramót er haldið á Íslandi

Þið hélduð Norðurlandamót 2014, Evrópumót 2016, Evrópumót í fyrra og svo heimsmeistaramót núna. Hvernig stendur á því að það er verið að halda öll þessi stóru mót þessari litlu íþróttahöll á Íslandi?

„Góð spurning. Kannski af því að við erum nógu klikkuð til að láta á það reyna,“ svarar Ellert og hlær. „Nei, í sambandi við þetta heimsmeistaramót þá er það vegna velgengni okkar með Evrópumótið í fyrra sem ýtti undir að við fengjum að halda mótið.

Þetta mót er haldið á hverju ári og það er búið að festa niður hvar mótin eru haldin nokkur ár fram í tímanna. Mótið í ár átti að vera haldið á Indlandi en fyrir svona einu og hálfu ári sá Alþjóðlega kraftlyftingasambandið að það gæti ekki treyst aðilum þar til að halda mótið. Í kjölfarið fékk formaður Kraftlyftingasambands Íslands símtal og honum tjáð að það vantaði mótshaldara, hvort við hefðum áhuga – við hefðum 24 klukkutíma til að sækja um. Þetta var einhvern veginn svona og það var slegið til.“

Ellert segir að ákvörðunin hafi eiginlega legið fyrir þegar Massi hélt Evrópumeistaramótið í fyrra, að Ísland væri líklegasti kosturinn fyrir heimsmeistaramótið. „Það var nokkurs konar generalprufa,“ segir Ellert.

Ellert Birni og Guðlaugu Olsen var hrósað í hástert fyrir umgjörð Evrópumótsins á síðasta ári.

Sex keppnisdagar og keppni fatlaðra

„Undanfarin ár hefur Alþjóðlega kraftlyftingasambandið samtvinnað Special Olympics inn í mótið, þannig að keppendur fatlaðra í kraftlyftingum fá í raun sama svið og besta fólkið í greininni. Við verðum með tuttugu keppendur í flokki Special Olympics, þar af eru sjö Íslendingar. Við eigum fullt af sterku lyftingafólki og fjögur þeirra hafa verið að taka þátt í alþjóðlegum mótum en hin hafa ekki verið mikið að ferðast og nota því tækifærið núna til að taka þátt.“

Mótið hefst næstkomandi mánudag og Ellert hvetur alla áhugasama um kraftlyftingar til að líta við í Ljónagryfjunni. Aðgangur að mótinu sé ókeypis og veitingasala opin alla daga fram á kvöld.

Allar upplýsingar um heimsmeistaramótið er að finna á ipfworlds.com og á Facebook-síðu Massa.