Stuðlaberg Pósthússtræti

Íþróttir

Heimavistin er nákvæmlega eins og í bíómyndunum
Föstudagur 19. mars 2021 kl. 07:27

Heimavistin er nákvæmlega eins og í bíómyndunum

Keflvíkingurinn Gunnhildur Björg Baldursdóttir, afrekskona í sundi, stundar nám í fjölmiðlafræðum og syndir með sundliði Youngstown State- háskólans í Ohio í Bandaríkjunum.

„Ég var reyndar lengi sannfærð um að verða flugmaður en ég var svo hrædd um að sjá eftir því seinna að hafa ekki drifið mig út. Ég sé alls ekki eftir því núna og er mjög fegin að ég nýtti mér möguleikana sem sundið gaf mér,“ segir Gunnhildur Björg Baldursdóttir, afrekssundkona úr Keflavík og háskólanemi í Bandaríkjunum.

Gunnhildur hefur náð góðum árangri í lauginni og meðal annars synt með landsliði Íslands á Norðurlandameistaramóti. Hún hefur í mörg ár synt með ÍRB en var það alltaf draumur hjá henni að fara út í skóla?

„Já, þetta hefur alltaf verið draumurinn. Ég var heppin að hafa margar fyrirmyndir í ÍRB, t.d. Erlu Dögg, Davíð Hildiberg og Jónu Helenu sem fóru öll til Bandaríkjanna á sundstyrk. Ég heillaðist snemma af ævintýrasögunum þeirra sem þau sögðu okkur yngri sundkrökkunum á sumrin þegar þau voru í fríi í skólanum, þá var ég bara um tólf ára.“

– Í hvaða greinum ertu best í?

„Ég hef alltaf verið sterkust í 200 metra flugsundi og svo 200 og 400 metra fjórsundi og ég náði þar inn á Norðurlandameistaramótið árin 2018 og 2019. Það var frábær reynsla að fá að keppa fyrir Íslands hönd og skapaði fullt af nýjum tækifærum fyrir mig.“

– Hvernig endaðir þú í Ohio?

„Þetta er spurning sem margir spyrja mig að hérna úti. Þetta var allt saman ákveðið ferli en ég byrjaði á að finna mér umboðsmann sem hafði tengsl við marga góða sundþjálfara í bandarískum háskólum. Það sem við gerðum var í raun ekki mikið flóknara en að senda fjöldapóst á um 250 sundþjálfara og svo biðum við spennt eftir svörum. Það voru margir sem höfðu samband til baka og þar á meðal skólinn minn, Youngstown State University. Samskiptin eru fyrst bara í gegnum tölvupóst og síðan hringja þjálfarar yfirleitt í mann á Skype til að ræða markmið og samninga. Til þess að landa samningi er mikilvægt að vera sterkur námsmaður því sundið og skólinn helst mikið í hendur. Þjálfarar eru líka að leitast mikið eftir karakterum sem geta haldið góðum liðsanda því sund er mun meiri liðsíþrótt hér úti heldur en heima.“

– Hvernig gengur námið?

„Það gengur mjög vel en ég ákvað að skella mér í fjölmiðlafræði í Youngstown State University. Ég hef alltaf verið mikið sögunörd og hef gríðarlegan áhuga á samfélaginu, stjórnmálum og fólki. Fjölmiðlafræðin er mjög fjölbreytt svið þar sem ég læri ekki aðeins að skrifa greinar, heldur líka hvernig á að koma fram, hvernig maður tekur góð viðtöl og svo margt fleira. Við förum líka djúpt í siðfræðina og hvernig fjölmiðlafólk tekur ákvarðanir samkvæmt henni. Ég held að ég sé á akkúrat réttum stað á réttum tíma. Það er sérstaklega spennandi að læra fjölmiðlafræði á tímum sem heimurinn er að breytast hratt og með Bandaríkin sem stærsta sögusviðið beint fyrir framan nefið á mér,“ en í skólanum ytra er hún meðlimur kvennablaðs háskólans sem heitir „Her Campus“.

– Hverjar eru stærstu áskoranirnar við að vera í háskólanámi í miðjum heimsfaraldri?

„Það er klárlega að vera í fjarnámi. Helmingurinn af áföngunum mínum eru á netinu og það krefst mikils sjálfsaga og tímastjórnunar að gera öll verkefnin. Það sem mér finnst líka erfitt er að í staðinn fyrir að rétta upp hönd og kennarinn svarar spurningunni á 30 sekúndum þá þarf ég að eyða tíma í að skrifa nákvæman tölvupóst til kennarans og síðan er mismunandi hvað þeir eru fljótir að svara. Sumir svara ekki fyrr en tveimur dögum seinna. Vegna fjarnámsins er ég líka að missa af því að upplifa ýmislegt sem fylgir því að vera í háskóla og það er erfiðara að kynnast nýju fólki. Samt vil ég alltaf reyna að horfa á björtu hliðarnar. Fyrir mig er það nóg að vera hérna úti að gera það sem mig hefur alltaf dreymt um og ég er þakklát fyrir þá sérstöðu að liðið mitt er það eina í deildinni sem getur æft á fullu. Það eru ekki allir skólar jafn heppnir, við höfum staðið okkur vel að halda smitum niðri.“

– Geturðu lýst skólasvæðinu?

„Háskólasvæðið er akkúrat passlegt, ekki of stórt en samt ekki lítið. Allt sem ég þarf er í um það bil í tíu mínútna radíus. Eins og algengt er þá eru sér byggingar fyrir hvert svið þannig ég er ekkert allt of mikið að flakka út um allt. Ég bý líka á heimavistinni sem er skemmtileg stemmning því stór hluti af sundliðinu býr þar og við borðum t.d. öll saman eftir æfingar. Það sem kom mér á óvart var að heimavistin er nákvæmlega eins og í bíómyndunum.

Núna er aðeins farið að vora en það er sérstaklega fallegur árstími því það eru svo mörg tré hérna sem fara að blómstra. Þá er svo ljúft að geta lært á meðan maður situr úti í sólinni með kaldan drykk og nýtur þess að vera í fallegu umhverfi.“

– Ef við horfum aðeins fram í tímann, hvernig líta næstu ár út hjá þér?

„Mestur fókusinn á eftir að fara í að hjálpa til við að byggja upp sterkt lið. Við erum með flotta sundmenn alls staðar úr heiminum, t.d. Indlandi, Chile, Ungverjalandi, Bahama, Spáni og Rúmeníu svo eitthvað sé nefnt. Þetta sundlið er á mikilli uppleið og við stefnum á að vera að minnsta kosti í einu efstu þremur sætunum í deildinni, það verður því spennandi að sjá hvernig næstu meistaramót fara.

Varðandi námið þá langar mig að sækja mér reynslu bæði heima á Íslandi og hér í Bandaríkjunum. Það er nefnilega ekki alltaf það sama að læra fjölmiðlafræði og að starfa sem fjölmiðlakona í krefjandi starfsumhverfi. Annars er þetta svo mikið ævintýri að læra erlendis að ég leyfi hlutunum bara að gerast. Mér finnst best að reyna taka einn dag í einu og njóta þess að vera hérna því tíminn er fljótur að líða,“ segir sunddrottningin Gunnhildur Björg.