Íþróttir

Grindvíkingurinn Hilmar McShane gerir það gott með ungmennaliði Íslands
Hilmar er alltaf í treyju númer 8 því pabbi hans var alltaf með það númer á bakinu þegar hann lék með Grindavík. Hjá landsliðinu er hann þó númer 10.
Sunnudagur 27. október 2013 kl. 10:49

Grindvíkingurinn Hilmar McShane gerir það gott með ungmennaliði Íslands

-Hefur þegar heimsótt stórlið á Bretlandseyjum

Grindvíkingar framleiða unga og efnilega íþróttamenn á færibandi að því er virðist. Hilmar Andrew McShane er einn þeirra en hann er 14 ára knattspyrnumaður. Á undanförnum dögum hefur Hilmar dvalið í Sviss þar sem hann lék með undir 15 ára landsliði Íslands.Liðið tryggði sér þátttökurétt á Ólympíuleikum ungmenna sem fram fara í Kína á næsta ári. Það gerði liðið með því að sigra tvo leiki gegn Finnum og Moldavíu. Hilmar Andrew skoraði í báðum leikjunum en hann leikur sem miðjumaður.

Faðir Hilmars er Skotinn Paul McShane sem leikið hefur á Íslandi síðan árið 1998, þá mestmegnis með Grindvíkingum. Hilmar hefur nú þegar þrátt fyrir ungan aldur farið á reynslu til stórliða á Bretlandseyjum. Hann heimsótti enska liðið Newcastle og síðan skoska stórveldið Glasgow Rangers, en það lið er í uppáhaldi hjá pilti. Honum gekk vel og þá sérstaklega hjá Rangers en þar skoraði hann tvö mörk og lagði annað upp í þremur leikjum með unglingaliði félagsins.

Hilmar segir íslenska hópinn sem náði á Ólympíuleikana vera glæsilegan. „Þarna eru frábærir strákar sem eiga framtíðina fyrir sér. Allt teymið var gott og ég tel okkur geta lært mikið af Frey (Sverrissyni) þjálfara, hann getur gert okkur að flottum leikmönnum.“ Það yrði óneitanlega mikil upplifun fyrir þessa ungu stráka að fara til Kína og spila þar við sterk lið. Hilmar vonast til þess að fara með hópnum að ári.
„Það leggst bara mjög vel í mig að fara til Kína. Það verða aftur úrtakshópar fyrir leikana en vonandi verður maður valinn aftur til þess að fara.“

Hilmar á skoskan föður eins og áður segir og reglulega fer hann í heimsókn til fjölskyldu sinnar í Skotlandi. Blaðamaður gat ekki á sér setið og spurði að ef það kæmi sá dagur að hann þyrfti að velja á milli landsliða, Ísland eða Skotland? „Það er erfitt að svara því en þegar það kemur tími þar sem ég verð að velja á milli þá svara ég því,“ segir Hilmar eins og sannur atvinnumaður. Nú þegar hefur þessi 14 ára efnilegi leikmaður farið á æfingar með meistaraflokki Grindavíkur en hann er ekkert að hugsa um það hvort tilboð komi frá erlendu liðunum sem hann heimsótti í janúar. „Ég er ekkert að spá í það, heldur bara að reyna að bæta mig og verða betri leikmaður,“ segir Hilmar Andrew McShane að lokum.


 

Í Rangers búningi: Á reynslu hjá Rangers, en Hilmar styður það lið.

Hilmar og Paul faðir hans.

UEFA tók viðtal við Hilmar á mótinu í Sviss.

 

 

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs