Íþróttir

Grindvíkingar stöðvuðu sigurgöngu Fram
Dion Acoff lagði upp bæði mörk Grindvíkinga gegn Fram. Mynd úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 2. júlí 2021 kl. 08:57

Grindvíkingar stöðvuðu sigurgöngu Fram

Heil umferð fór fram í Lengjudeild karla í knattspyrnu í gær. Grindavík heimsótti Fram sem er efst og hafði ekki tapað stigi fram að því. Leikurinn var jafn og skemmtilegur og endaði á 2:2 jafntefli. Dion Acoff maðurinn á bak við bæði mörk Grindavíkur.

Fyrri hálfleikur snerist um baráttu og voru ekki mörg færi sem litu dagsins ljós. Grindavík var þó líklegra til að skora en bæði Sigurður Bjartur Hallsson og Aron Jóhannsson fengu færi til þess, Sigurður átti með góðan skalla en aðeins góð markvarsla hjá Fram kom í veg fyrir það.

Það var markalaust í hálfleik en eitthvað voru Grindvíkingar að melta hálfleiksræðu Sigurbjörns, þjálfara síns, í upphafi þess seinni því Fram komst yfir í fyrstu sókn sinni (47').

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Grindvíkingar svöruðu fyrir sig á 54. mínútu þegar Dion Acoff tók góðan sprett upp kantinn og sendi góða fyrirgjöf á Laurens Symons sem jafnaði leikinn.

Framarar komust aftur yfir á 74. mínútu en Grindvíkingar lögðu ekki árar í bát og Acoff endurtók leikinn, spretti upp kantinn og gaf á Symons sem jafnaði aftur (83').

Ekki voru fleiri mörk skoruð en sigurganga Fram stoppaði þarna. Grindavík fyrsta liðið til að taka stig af toppliðinu og eru nú í þriðja sæti með sautján stig, tveimur stigum á eftir ÍBV sem sigraði Selfoss í gær.

Vinnuþjarkurinn Sigurður Bjartur Hallsson valinn einn af bestu sóknarmönnum Lengjudeildarinnar.

Í byrjun vikunnar valdi Fótbolti.net bestu sóknarmenn Lengjudeildarinnar. Það kemur ekki á óvart að Sigurður Bjartur Hallsson er í hópi þeirra bestu en hann hefur skorað sjö mörk Grindvíkinga í ár og er alltaf tilbúinn til að reka lokahönd á sóknirnar. Eins og segir í umsögn Fótbolta.net þá er hann ótrúlega vinnusamur og duglegur leikmaður.

Tengill á frétt Fótbolta.net er hér að neðan.