Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Íþróttir

Grindvíkingar með sigur á Selfyssingum
Aron Jóhannsson skorar mark Grindavíkur með skoti sem fór milli fóta markvarðar Selfoss. VF-mynd: POP
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 4. júní 2021 kl. 10:46

Grindvíkingar með sigur á Selfyssingum

Grindavík tók á móti Selfossi í fimmtu umferð Lengjudeildar karla í knattspyrnu og hafði nauman sigur, 1:0. Með sigrinum er Grindavík nú í þriðja sæti deildarinnar.

Það verður að segjast að áferðarfallegur fótbolti sást ekki í Grindavík í gær. Vindurinn setti mark sitt á leikinn og Grindvíkingar léku undan honum í fyrri hálfleik. Fátt markvert gerðist í fyrri hálfleik nema Sigurður Bjartur Hallsson fékk eitt dauðafæri, sigraði markvörðinn en varnarmenn Selfoss gerðu þá vel að komast fyrir skot hans sem stefndi í markið. Grindvíkingar sóttu meira undan vindinum en markvörður Selfyssinga sá til þess að mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik.

Ekki var langt liðið á seinni hálfleik þegar Grindvíkingar áttu góða sókn og léku sig í gegnum vörn Selfoss, einfalt þríhyrningsspil hjá Aroni Jóhannssyni sem setti boltann svo viðstöðulaust í markið (63'). Þetta reyndist eina mark leiksins og með sigrinum er Grindavík komið í þriðja sæti Lengjudeildarinnar, enn á eftir að leika þrjá leiki í umferðinni svo það gæti breyst.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Undir lok leiksins sauð upp úr á hliðarlínunni en þá skrautlegu uppákomu má sjá í sér frétt hér á vf.is og myndasyrpu.

Páll Orri Pálsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á Grindavíkurvelli og náði eftirfarandi myndum sem sjá má í myndasafni neðar á síðunni.

Grindavík - Selfoss (1:0) | Lengjudeild karla 3. júní 2021