Íþróttir

Grindvíkingar gefast aldrei upp
Hekla Eik skoraði sautján stig í kvöld, hirti fjögur fráköst og átti sex stoðsendingar. VF-mynd: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 9. júní 2021 kl. 23:37

Grindvíkingar gefast aldrei upp

Grindavík - Njarðvík 67:64 (14:21, 13:16, 21:15, 19:12)

Fjórði leikur í úrslitaviðureign Grindavíkur og Njarðvíkur um sigur í 1. deild kvenna í körfuknattleik fór fram í Grindavík í kvöld – og annan leikinn í röð sneru Grindvíkingar leiknum sér í vil í síðasta leikhluta. Oddaleikur fer fram á laugardaginn í Ljónagryfjunni.

Þetta hefur verið hreint svakaleg rimma milli þessara tveggja liða enda sæti í úrvalsdeildinni í húfi. Fyrstu tvo leikina sigraði Njarðvík, þann seinni eftir þríframlengdan leik, en Grindavík hefur vaxið með hverjum leiknum og sýnt að leikurinn er aldrei búinn fyrr en flautan gellur.

Eins og fyrr þá byrjuðu Njarðvíkingar betur og komust fljótt yfir í leiknum, þær leiddu með sjö stigum eftir fyrsta leikhluta og juku forskotið í öðrum leikhluta og munaði tíu stigum á liðunum í hálfleik, staðan 27:37 Njarðvík í vil.

Grindvíkingar minnkuðu muninn niður í fjögur stig (48:52) í þriðja leikhluta og sá fjórði var rafmagnaður þar sem liðin skiptust á forystunni. Áhorfendur voru fjölmennir og létu vel í sér heyra af pöllunum – stemmningin mögnuð.

Njarðvík hafði þriggja stiga forystu um miðjan leikhlutann (57:60) en Grindavík komst yfir 61:60. Síðustu mínúturnar hoppaðir forystan á milli liðanna; 61:62, 63:62, 63:64, 65:64.

Þegar um hálf mínúta var eftir af leiknum reyndi Chelsea Jennings skot fyrir Njarðvík en hitti ekki, Grindvíkingar hirtu frákastið og komu boltanum á Heklu Eik sem Njarðvíkingar brutu á í kjölfarið.

Heklu Eik setti brást ekki bogalistinn þótt hátt væri sungið á pöllunum: „Hún fer á taugum, hún fer á taugum!“ Hún sýndi stáltaugar, setti bæði vítaköstin niður og kom heimakonum í þriggja stiga forystu, 67:64. Þótt Chelsea reyndi við þriggja stiga skotið, geigaði það og reyndust þetta lokatölurnar.

Miðað við það sem á undan er gengið í þessari leikjahrinu má búast við miklum baráttuleik á laugardag þegar liðin mætast í hreinum úrslitaleik á heimavelli Njarðvíkinga.

Fögnuður Grindvíkingar var að vonum mikill í leikslok.


Frammistaða Grindvíkinnga: Janno Jaye Otto 23/11 fráköst, Hekla Eik Nökkvadóttir 17/4 fráköst/6 stoðsendingar, Jenný Geirdal Kjartansdóttir 7/8 fráköst, Hulda Björk Ólafsdóttir 7/4 fráköst, Thea Ólafía Lucic Jónsdóttir 5, Anna Margrét Lucic Jónsdóttir 3, Arna Sif Elíasdóttir 3, Sædís Gunnarsdóttir 2, Æsa María Steingrímsdóttir 0, Natalía Jenný Lucic Jónsdóttir 0/5 fráköst/10 stoðsendingar, Edda Geirdal 0, Emma Liv Þórisdóttir 0.

Frammistaða Njarðvíkinga: Chelsea Nacole Jennings 26/11 fráköst/5 stolnir, Helena Rafnsdóttir 16/12 fráköst, Vilborg Jónsdóttir 8/10 fráköst/7 stoðsendingar, Krista Gló Magnúsdóttir 7, Þuríður Birna Björnsdóttir 2, Eva María Lúðvíksdóttir 2, Kamilla Sól Viktorsdóttir 2, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 1, Guðbjörg Einarsdóttir 0, Ása Böðvarsdóttir-Taylor 0, Anna Lilja Ásgeirsdóttir 0, Júlia Scheving Steindórsdóttir 0.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í Grindavík og tók myndir sem má sjá í myndasafni neðst á síðunni.

Grindavík - Njarðvík (67:64) | Úrslit 1. deildar kvenna 6. júní 2021