Íþróttir

Gaman að vera í Njarðvík
Gylfi Þór ásamt nýráðnum þjálfurum Njarðvíkinga, Bjarna Jóhannssyni og Hólmari Erni Rúnarssyni. Mynd úr safni Víkurfrétta.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 14. nóvember 2020 kl. 08:08

Gaman að vera í Njarðvík

Knattspyrnudeild Njarðvíkur réði þá Bjarna Jóhannsson og Hólmar Örn Rúnarsson til að taka við meistaraflokki Njarðvíkur fyrir viku síðan, svo bættist Einar Orri Einarsson á leikmannalista Njarðvíkinga í þessari viku – en það er fleira á döfinni hjá Njarðvíkingum. Framundan er metnaðarfull starfsemi að fara í gang með það að takmarki að Njarðvík skipi sér í hóp tuttugu bestu liða á Íslandi. Víkurfréttir ræddu við Gylfa Þór Gylfason, formann knattspyrnudeildarinnar, skömmu eftir ráðningu nýrra þjálfara.

„Reynslan sem þessir tveir búa yfir á eftir að nýtast öllum sem koma að félaginu og hef ég mikla trú á að þeir muni hjálpa félaginu að vera meðal tuttugu fremstu knattspyrnuliða á landinu,“ segir Gylfi bjartsýnn á framhaldið.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Knattspyrnudeildin ákvað að efla umgjörðina í yngri flokkum fyrir komandi tímabil og hefur aldrei verið jafn öflugur þjálfarahópur í yngri flokkum félagsins. Að auki hófum við afreksæfingar sem er fyrst og fremst ætlaðar fyrir leikmenn í öðrum til fjórða flokki, eða leikmenn á aldrinum þrettán til nítján ára. Marc McAusland er yfir afrekshópum Njarðvíkur en reynslan sem hann býr yfir á svo sannarlega eftir að nýtast ungum og efnilegum knattspyrnumönnum. Við höfum trú á að afreksstarf okkar eigi eftir að skila fleiri Njarðvíkingum upp í meistaraflokk og vonandi atvinnumennsku þegar fram líða stundir. Við í Njarðvík eigum margt flott fótboltafólk sem við komum vonandi til með að sjá meðal þeirra bestu á næstu árum – og jafnvel einn daginn slá leikjamet Njarðvíkingsins Óskars Arnar.“

Njarðvíkingurinn Óskar Örn Hauksson er fyrirliði karlaliðs KR í knattspyrnu. Hann er uppalinn hjá Njarðvík og lék með þeim til ársins 2003 en þá skipti Óskar yfir í Grindavík og hefur leikið í efstu deild síðan. Í síðasta mánuði varð Óskar leikjahæsti leikmaður í sögu efstu deildar á Íslandi þegar hann lék sinn 322. deildarleik og sló met markvarðarins Birkis Kristinssonar frá árinu 2006. Óskar hefur leikið samtals 455 meistaraflokksleiki, tvo leiki með A-landsliðinu og þrettán með yngri landsliðum Íslands.

– Hvað hafið þið í stjórninni verið að leggja áherslu á í ykkar starfi?

„Núverandi stjórn hefur lagt mikið kapp í að efla félagsandann innan Njarðvíkur og efla umgjörðina. Í samfélagi eins og Reykjanesbæ er einnig mikilvægt að hafa öflugt íþróttastarf og viljum við í stjórn knattspyrnudeildarinnar leggja okkar að mörkum í því. Eftir að það verður búið að létta samkomutakmarkanir þá stefnum við á að vera með getraunakaffi alla laugardaga þar sem Njarðvíkingar geta mætti í vallarhúsið okkar, spjallað um fótbolta og haft gaman. Við viljum að það sé gaman að vera í Njarðvík, þannig fáum við fleiri til að aðstoða félagið enda byggist íslenskt íþróttastarf fyrst og fremst upp á sjálfboðastarfi,“ sagði Gylfi að lokum.

Njarðvík í nýja búninga

Knattspyrnudeild UMFN hefur skrifað undir fjögurra ára samstarfssamning við íþróttavörumerkið Macron. Macron opnaði nýverið verslun í Skútuvogi og eru einnig með öfluga vefverslun á macron.is þar sem m.a. er hægt að kaupa nýja Njarðvíkurbúninginn og bendir Gylfi á að hann sé „tilvalinn í jólapakkann“.

Gylfi segir að Macron hafi verið stofnað árið 1971 á Ítalíu og upphaflega framleitt vörur fyrir önnur merki eins og Nike, Adidas og Reebok en árið 2001 hafi orðið stefnubreyting hjá fyrirtækinu og lögð áhersla á hönnun og framleiðslu eigin íþróttafatnaðar.

„Nýtískuleg og framúrstefnuleg hönnun hafa gert Macron að einum mest vaxandi íþróttavöruframleiðanda í Evrópu síðastliðinn áratug og leggur Macron mikið upp úr því að vera með góða þjónustu, gæði og gott verð. Við Njarðvíkingar bindum miklar vonir um farsælt samstarf og bjóðum Macron velkomið til liðs við okkur.“