Íþróttir

Fyrstu leikir Suðurnesjaliðanna í 2. deild
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 20. júní 2020 kl. 20:56

Fyrstu leikir Suðurnesjaliðanna í 2. deild

Tap, sigur og jafntefli í fyrstu umferð

Ákveðnir Njarðvíkingar með sigur í fyrsta leik

Eftir slæmt tap í Mjólkurbikarnum um síðustu helgi mættu Njarðvíkingar ákveðnir til leiks í dag gegn Völsungi. Þeir grænklæddu voru grimmir frá byrjun, sköpuðu sér færi og uppskáru loks á 40. mínútu þegar Kenneth Hogg skallaði knöttinn í markið eftir fallega fyrirgjöf frá Stefáni Birgi Jóhannessyni og Njarðvíkingar komnir yfir. Rétt áður en dómari blés til hálfleiks varð Arnar Helgi Magnússon fyrir því óláni að skora sjálfsmark og jafna leikinn fyrir Völsung, staðan 1:1 í leikhléi.

Njarðvíkingar létu ekki slá sig út af laginu og snemma í síðari hálfleik skoraði Stefán Birgir (54') og kom Njarðvík aftur yfir í leiknum. Hann fékk svo ágætis færi fimm mínútum síðar til að auka forystuna þegar Njarðvík fékk dæmda vítaspyrnu en markvörður Völsungs varði hana. Það var svo Atli Freyr Ottesen Pálsson sem innsiglaði sigur Njarðvíkinga á 82. mínútu með góðu skoti.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Óheppnir Þróttarar með jafntefli fyrir norðan

Þróttur sótti Dalvík/Reynir heim í dag. Þróttur lenti undir í leiknum á 20. mínútu en Brynjar Jónasson jafnaði þremur mínútum síðar. Fimm gul spjöld fóru á loft í leikn og fengu Þróttarar fjögur þeirra. Ekki voru fleiri mörk skoruð þrátt fyrir að Þróttur hafi fengið vítaspyrnu undir lokin en Brynjar misnotaði hana og jafntefli því niðurstaðan.

Kórdrengir mættu í Garðinn og sóttu öll stigin

Víðismenn áttu fá svör við leik Kórdrengja í dag sem er spáð öðru sæti í deildinni í sumar. Á sextán mínútna kafla í fyrri hálfleik skoruðu Kórdrengir í þrígang (16', 20' og 32').

Hart barist í leik Víðis og Kórdrengja. VF-mynd: Hilmar Bragi


Ítarlegri umfjöllun um leikina verður í næsta tölublaði Víkurfrétta.