Blik í auga
Blik í auga

Íþróttir

Fyrsta tap Þróttara eftir að Hermann tók við
Hermann Hreiðarsson stýrði liði Þróttar fyrst gegn Völsungi þann 11. júlí síðastliðinn.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 30. ágúst 2020 kl. 02:08

Fyrsta tap Þróttara eftir að Hermann tók við

Þróttur lék á útivelli gegn Haukum úr Hafnarfirði í 2. deild karla á föstudag. Þróttarar höfðu ekki tapað leik síðan 3. júlí – þegar þeir mættu Haukum í fyrri umferð Íslandsmótsins.

Það voru Haukar sem skoruðu fyrst í leiknum (7') og bættu öðru marki við á 28. mínútu.

Þróttarar gáfust ekki upp og höfðu jafnað leikinn áður en flautað var til hálfleiks. Fyrra markið skoraði Alexander Helgason úr víti (35') og það seinna Júlíus Óli Stefánsson. Staðan 2:2 í leikhléi.

Í seinni hálfleik urðu Þróttarar fyrir því að missa mann út af þegar Andri braut á leikmanni Hauka sem var að sleppa í gegn, beint rautt (52') og Þróttur manni færri.

Leikar jöfnuðust tíu mínútum síðar en þá braut leikmaður Hauka af sér í tvígang á skömmum tíma og fékk einnig reisupassann (62').

Það voru svo Haukar sem kláruðu leikinn með marki á 81. mínútu. Lokatölur 3:2 fyrir Hauka.

Úr öðru sæti í það fjórða

Þróttur hefur verið á góðri siglingu í deildinni og þetta var fyrsti leikurinn sem tapast undir stjórn Hermanns Hreiðarssonar sem tók við liðinu snemma í júlí. Eins og fyrirfram var búist er 2. deildin mjög jöfn og lítið þarf til að breyta stöðunni í henni. Það munar ekki nema fimm stigum á efsta liðinu í deildinni, Kórdrengjum (sem eru með 27 stig), og Njarðvík sem er í sjötta sæti (22 stig), þá er Þróttur í fjórða sæti með 25 stig en liðið var í öðru sæti fyrir leikinn.