Nettó
Nettó

Íþróttir

Fyrsta tap Keflavíkurstúlkna en halda þó toppsætinu
Laugardagur 11. ágúst 2018 kl. 06:00

Fyrsta tap Keflavíkurstúlkna en halda þó toppsætinu

- eru þó enn í efsta sæti Inkasso-deildarinnar

„Þetta var virkilega súrt að tapa þessum leik því við lékum vel og yfirspiluðum Fylki í fyrri hálfleik og síðan voru mörg dauðafæri sem fóru forgörðum. Fyrsta tapið staðreynd í sumar en stelpurnar mæta sterkar í næsta leik og láta þetta tap ekki slá sig út af laginu. Stefnan er að vinna deildina og við mætum Fylki aftur síðar í mánuðinum,“ sagði Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkurstúlkna sem urðu að lúta í gras 0-1 fyrir Fylki á Nettó-vellinum í gærkvöldi.

Keflavíkurstúlkur hafa verið á fleygiferð í allt sumar og ekki tapað leik fyrr en nú gegn Fylki sem skoraði sigurmarkið á 81. mínútu. Keflavík fékk dauðafæri rétt fyrir leikslok þegar Aníta Lind skaut boltanum nánast á marklínu Fylkis en yfir fór boltinn.

Keflavík er þrátt fyrir tapið í efsta sæti en Fylkir á leik inni. Skagastúlkur eru í 3. sæti, sex stigum á eftir Keflavík og hafa leikið leik meira. Það þarf því ansi mikið að gerast til að Keflavík fljúgi ekki upp í Pepsi-deildina á næsta ári.

Gunnar segir markmiðið enn að vinna deildina og að liðið sé tilbúið í efstu deild á næstu leiktíð. „En við þurfum að klára mótið,“ sagði hann og reyndar margt fleira í viðtali við VF eftir leikinn sem má sjá hér í fréttinni.

Keflavík-Fylkir Inkasso kvenna

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs