HMS
HMS

Íþróttir

Frábært hjá landsliðinu
Sveindís fagnar marki Svövu Rósar Guðmundsdóttur gegn Tékkum á föstudag. Myndir: Fotbolti.net
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 27. október 2021 kl. 08:22

Frábært hjá landsliðinu

Keflvíkingurinn Sveindís Jane kom mikið við sögu í gær þegar A-landslið kvenna hafði yfirburðasigur á Kýpur á Laugardalsvellinum. Ísland lék tvö leiki í kringum þessa helgi, fyrst unnu stelpurnar Tékkland glæsilega 4:0 á föstudag og leikurinn í gær fór 5:0 fyrir Íslandi.

Þótt Sveindís hafi ekki skorað í fyrri leiknum er hún búin að stimpla sig inn sem einn af mikilvægari leikmönnum liðsins og hún nær að skapa usla hjá varnarmönnum andstæðinga sinna með gríðarlegum hraða sínum og krafti – að ógleymdum löngu innköstunum sem oft skapa mörk. Sveindís bætti upp fyrir markaleysið í gær með því að skora tvö mörk, það fyrra var afar glæsilegt einstaklingsframtak en þá skildi hún varnarmenn Kýpur eftir í rykinu þegar hún fékk boltann á hægri kanti, tók sprettinn framhjá varnarmanni inn í teig og hamraði hann í netið, óverjandi fyrir markmann Kýpur (21').

Seinna mark Sveindísar kom í síðari hálfleik þegar hún tók viðstöðulaust á móti langri sendingu Elísu Viðarsdóttur frá vinstri kanti og lagði boltann fallega í fjærhornið, miðað við viðbrögð Sveindísar við markinum má reikna með að hún hafi ætlað að senda fyrir markið en gott mark engu að síður.

Bílaverkstæði Þóris
Bílaverkstæði Þóris
Sveindís Jane er stöðugt að bæta sig sem leikmaður. Úr leiknum gegn Tékklandi

Landsliðið lítur vel út

Eftir að hafa tapað fyrsta leiknum í undankeppni HM, gegn Evrópumeisturum Hollands, sýndu íslensku stelpurnar að þær eru til alls líklegar. Frábær leikur liðsins gegn Tékkum færði þeim fyrstu stigin og í gær gerði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, sjö breytingar á byrjunarliðinu auk þess að skipta fimm leikmönnum inn á í seinni hálfleik. Breidd liðsins er því mikil og margar tilbúnar í þau verkefni sem framundan eru.

Þorsteinn kvartaði yfir lélegri mætingu á leikinn á blaðamannafundi eftir leikinn. Hann segist hafa viljað sjá fleiri mæta á völlinn þegar hann var spurður út í hvort hann væri ánægður með mætinguna.

„Nei, ég vil sjá fleiri. Mér finnst að stelpurnar eigi það skilið en fólk bara velur hvort að það mætir á völlinn. Ég vil sjá fimm til sex þúsund manns allavega þegar stelpurnar eru að spila, þær eiga það bara skilið miðað við það hvað þær eru góðar." (Fotbolti.net)

Sveindís Jane er stöðugt að bæta sig sem leikmaður og vakti hún aðdáun og eftirtekt eins og sjá mátti á Twitter-færslum sem þessari. Skjáskot

Í nýjasta tölublaði Víkurfrétta er viðtal við Sveindísi þar sem við ræðum m.a. um upplifun hennar sem atvinnumaður en Sveindís hefur verið á láni hjá Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni frá þýska stórliðinu Wolfsburg undanfarið tímabil. Nú styttist í að Sveindís söðli um og gangi í raðir Wolfsburg en það gerist eftir landsleik Íslands í nóvember gegn Kýpur sem fer fram á Kýpur þann 30. nóvember.