Miðflokkurinn
Miðflokkurinn

Íþróttir

Fengu slæma útreið í Eyjum
Eftir jafnan fyrri hálfleik tóku Eyjamenn öll völd á vellinum. Mynd úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 24. júlí 2021 kl. 09:38

Fengu slæma útreið í Eyjum

Eftir að hafa gert jafntefli í fimm síðustu leikjum sínum tapaði Grindavík illa í gær þegar leikur ÍBV og Grindavíkur var leikinn á Hásteinsvelli. Möguleikar Grindvíkinga um sæti í efstu deild eru teknir að dvína en með sigrinum eru Eyjamenn sex stigum fyrir ofan Grindavík í öðru sæti. Fram er með yfirburðarforystu í deildinni og hefur sex stiga forskot á næsta lið og á leik til góða.

Leikurinn byrjaði hressilega þar sem bæði lið áttu sín færi en eftir því sem leið á leikinn duttu gæði hans niður. Það dró til tíðinda á 38. mínútu þegar markvörður Eyjamanna gerðist sekur um slæm mistök. Dion Acoff pressaði þá á markvörðinn sem náði ekki að losa sig við boltann, skoraði og kom Grindvíkingum yfir.

Grindvíkingar leiddu því í með einu marki í leikhléi eftir jafnan fyrri hálfleik en það voru tvö ólík lið sem komu inn á völlinn í þeim seinni. Það tók Eyjamenn ekki langan tíma að jafna leikinn. Á 47. mínútu áttu þeir góða sókn sem endaði með fyrirgjöf og marki. ÍBV sótti hart að Grindvíkingum á upphafsmínútum síðari hálfleiks og voru í tvígang nálægt því að komast yfir skömmu eftir jöfnunarmarkið.

Viðreisn
Viðreisn

Á meðan Eyjamenn mættu kolvitlausir í seinni hálfleikinn (spurning hvort fréttir af því að ekkert verði af Þjóðhátíð hafi kveikt í þeim) þá voru Grindvíkingar á hælunum. ÍBV komst yfir á 58. mínútu þegar leikmaður þess vann boltann af Josip Zeba og komst einn í gegn og skoraði fram hjá Aroni Degi í marki Grindavíkur. Viðsnúningur og Eyjamenn komnir í forystu – en þeir voru hvergi hættir.

Nokkrum mínútum eftir að hafa komist yfir juku Eyjamenn forystu sína í 3:1 (62') og þeir skoruðu fjórða mark sitt þegar korter lifði leiks (75'). Lokatölur 4:1 fyrir ÍBV.

Grindavík er með tuttugu stig eftir þrettán leiki og situr í fimmta sæti Lengjudeildarinnar en Vestri, sem leikur gegn Selfossi síðar í dag, getur komist upp í fjórða sæti með sigri og þá yrðu Grindvíkingar komnir í sjötta sæti, sex stigum frá ÍBV sem er í öðru sæti.