Íþróttir

Eva Margrét og Kristmundur íþróttafólk Keflavíkur 2019
Eva Margrét og Helgi Rafn Guðmundsson þjálfari Kristmundar með verðlaunagripina. VF-myndir/pket.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 30. desember 2019 kl. 21:25

Eva Margrét og Kristmundur íþróttafólk Keflavíkur 2019

Sundkonan Eva Margrét Falsdóttir og taekwondokappinn Kristmundur Gíslason voru kjörin Íþróttafólk Keflavíkur 2019 en greint var frá valinu í félagsheimili Keflavíkur í kvöld.

Eva Margrét er aðeins 14 ára gömul en hún var m.a. Íslandsmeistari í sjö greinum á Aldursflokkameistaramótinu á árnu auk fleiri afreka . Kristmundur er einn besti taekwondomaður landsins og hefur verið fastamaður í landsliðinu í mörg ár.

Public deli
Public deli

Íþróttafólk Keflavíkur:

Knattspyrnukarl: Magnús Þór Magnússon

Valinn besti leikmaðurinn Keflavíkur 2019, er fyrirliði liðsins og hefur lagt mikið aukalega á sig til að sinna því starfi sem er ómetanlegt fyrir félags eins og Keflavík

Knattspyrnukona: Natasha Moraa

Valinn besti leikmaður Keflavíkur 2019, er fyrirliði liðslins og leggur mikið á sig aukalega til að gera liðið og umgjörðina í kringum liðið betra. Var valin í lið ársins í Peppsí-deildinni

Körfuknattleikskarl: Hörður Axel Vilhjálmsson

Hefur átt og á fast sæti í A landsliði Íslands. Er metnaðarfullur og tekur íþróttina alvarlega.
Þjálfar yngri flokka deildarinnar auk þess að þjálfa meistaraflokk.

Körfuknattleikskona: Salbjörg Ragna Sævarsdóttir

Er mikil fyrirmynd fyrir yngri krakka deildarinnar, starfar sem Grunnskóla kennari í Heiðarskóla. Hefur verið ein af mörgum frábærum leikmönnum Keflavíkur sterkur varnarmaður og er oft að berjast í teignum við erlenda leikmenn hjá öðrum liðum. Var valinn í æfingahóp A Landsliðs Íslands

Fimleikakarl: Atli Viktor Björnsson

Innanfélagmeistari deildarinnar 2019. Er mjög duglegur, vinnusamur og einbeittur á æfingum. Leggur sig 100% fram og mætir mjög vel. Er mikill leiðtogi og góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur deildarinnar


Fimleikakona: Emma Jónsdóttir

GK deildarmeistari í 2.flokki, valin í úrvalshóp unglinga. Rr mjög samviskusöm, mætir á allar æfingar og leggur sig alltaf 100% fram. Er metnaðarfull og frábær fyrirmynd yngri iðkendur. Valin í úrvalshóp unglinga í hópfimleikum sem æfir saman einu sinni í mánuði og undirbýr sig fyrir Evrópumót í hópfimleikum 2020.

Sundkarl: Þröstur Bjarnason

Var íslandsmeistari í tveimur greinum  í fullorðins flokki á árinu á ÍM 50.
Hefur ekki keppt mikið hér heima en hann stundar nám við McKendree háskólann í Illinois. Hann hefur staðið sig afar vel með liði háskólans. Hann á t.d. skólametið í 500y skriðsundi og var í boðsundsveit sem setti skólamet í 4x200y boðsundi. Á vorönn 2019 var hann tilnefndur til kosninga um íþróttamann skólans. 

Er einn af lykilmönnum íslenska karlalandsliðsins í sundi og á eftir að vera áberandi í framtíðinni.

Sundkona: Eva Margrét Falsdóttir

Íslandsmeistari í sjö greinum á Aldursflokkameistaramótinu og á Íslandsmeistaramóti í  25 metra laug varð hún í fyrsta skipti Íslandsmeistari í fullorðins flokki í 400m fjórsundi. Náði lágmörkum fyrir þrjú verkefni hjá SSÍ í sumar. Norðurlandamót Æskunnar (NÆM), Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar (EYOF) og Evrópumeistaramót Unglinga (EMU)

Valdi að taka þátt í Norðurlandamót Æskunnar (NÆM). Íslandsmeistaramóti í  25 metra laug náði hún lágmörkum á Norðurlandameistaramótið í Sundi sem fram fór í Færeyjum. Hún komst þar í úrslit í 200m bringusundi þar sem hún hafnaði í 4. sæti

Taekwondokarl: Kristmundur Gíslason

Er einn besti keppandi landsins. Hann hefur verið fasta maður landsliðsins í áraraðir. Á þessu ári var hann ósigraður á Íslandi. Hann var þá valinn besti keppandinn á bæði Bikar- og Íslandsmótinu. Vann fyrsta Norðurlandameistaratitilinn sinn á árinu í -80kg flokki.

Keppti á US Open og vann fyrsta bardagann, en tapaði svo gegn ríkjandi heimsmeistara

Kristmundur keppti á HM sem haldið var í Manchester í maí og fyrsta sinn í þessum þyngdarflokki. Keppti við besta keppanda Kanada í fyrsta bardaga og var rimman mjög jöfn en því miður vann keppandinn frá Kanada.

Hefur þjálfað hjá taekwondo deildinni um árabil og er einn af burðarstólpum deildarinnar. Hann vekur athygli hvar sem hann fer að keppa eða æfa.

Taekwondokona: Dagfríður Pétursdóttir

Er Íslandsmeistari í einstaklingstækni. Gull á bikarmótum í einstkalingstækni, Gull í bardaga á British Autumn Open og Gull í tækni á British Autumn Open auk annarra verðlauna. Er mikil vítamínsprauta fyrir taekwondo deildina. Hún er öflug keppnismanneskja og nær frábærum árangri í keppnunum sem hún tekur þátt í. Þá er hún gífurlega góður æfingafélagi, hjálpar öllum innan deildarinnar að bæta sig og veita þá aðstoð sem þau þurfa og svo er hún hluti af sterku foreldrafélagi deildarinnar.

Blakkarl: Bjarni Þór Hólmsteinsson

Er  aðeins 16 ára er yngsti leikmaðurinn í karlaliðinu og aðeins æft í 2 ár. Hann er stór og sterkur leikmaður og með sterku smöss sem erfitt er að taka á móti. Hann var valin í úrtökuhóp fyrir U17 og er svo valin í landsliðshóp U17 eftir úrtökuæfinga helgina og brotið blað í 6 ára sögu Blakdeilda Keflavíkur.

Blakkona: Jónína Einarsdóttir

Er sterkur og kvetjandi leiðtogi í kvennaliðinu sem kom í liðið fyrir rúmum 3 árum. Hún er sterkur kanntsmassari með sín föstu smöss og sterku uppgjafir. Jónína er ómissandi leikmaður hvort sem það er í leik eða á æfingu.

Verðlaunahafar eða fulltrúar þeirra með Einari Haraldssyni, formanni Keflavíkur.