Uppbyggingarsjóður 2022
Uppbyggingarsjóður 2022

Íþróttir

Döpur dómgæsla í aðalhlutverki
Jóhann Ingi Jónsson, dómari í leik Keflavíkur og Víkings, hafði lítil sem engin tök á leiknum, tók margar vafasamar ákvarðanir og var spjaldaglaður með eindæmum. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 11. september 2022 kl. 17:56

Döpur dómgæsla í aðalhlutverki

Keflavík tapaði fyrr í dag fyrir Íslandsmeisturum Víkings í Bestu deild karla í knattspyrnu með þremur mörkum gegn engu. Víkingar komust yfir á 17. mínútu en Keflavík jafnaði leikinn tíu mínútum síðar með marki Adams Árna Róbertssonar beint úr hornspyrnu  en arfaslakur dómari leiksins dæmdi markið af, taldi að brotið hafi verið á Ingvari Jónssyni, markverði Víkings, en dómurinn var fráleitur eins og myndirnar sýna.

Myndasyrpa af „marki“ Adams Árna Róbertssonar þar sem sést vel að enginn brýtur á markverði Víkings.

Það er ómögulega hægt að segja hver þróun leiksins hefði orðið ef mark Keflvíkinga hefði fengið að standa. Keflvíkingar þurftu að sækja og við það opnaðist vörn þeirra fyrir hröðum sóknum gestanna og gæði Víkinga fram á við eru slík að þeir eru fljótir að refsa – sem þeir og gerðu.

Víkingar fengu vítaspyrnu á 34. mínútu sem þeir skoruðu úr og Keflvíkingar voru enn að sleikja sárin þegar Víkingar skoruðu þriðja mark sitt (36'). Patrik Johannesen var nálægt því að minnka muninn í blálok hálfleiksins en skot hans úr þröngri stöðu hafnaði í utanverðri stönginni. Staðan því 0:3 í hálfleik og ljóst að það yrði á brattann að sækja hjá Keflvíkingum í seinni hálfleik.

Patrik Johannesen var óheppinn þegar skot hans hafnaði í utanverðri stönginni.

Keflvíkingar stóðu löngum stundum í Íslandsmeisturunum og sýndu þein enga virðingu. Þeir sóttu hart að marki Víkinga og sköpuðu sér nokkur álitleg færi en þó án uppskeru. Baráttan í liðinu var til fyrirmyndar en fjölmargar vafasamar ákvarðanir dómarans settu leiðinlegan blett á annars ágætan fótboltaleik.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leiknum og má sjá myndasafn úr honum neðst á síðunni.

Keflavík - Víkingur (0:3) | Besta deild karla 11. september 2022