Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Íþróttir

Domino's karla: Sigur hjá Grindavík en Njarðvík tapaði
Grindvíkingar börðust vel í gær og uppskáru góðan sigur á ÍR-ingum. Mynd úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 30. apríl 2021 kl. 08:16

Domino's karla: Sigur hjá Grindavík en Njarðvík tapaði

Grindavík og Njarðvík léku bæði í Domino's-deild karla í gær. Grindavík lagði ÍR á heimavelli en Njarðvíkingar lágu fyrir Stjörnunni í Garðabæ.

Það gengur ekkert hjá Njarðvíkingum þessa dagana og liðið er komið í neðsta sæti deildarinnar. Framundan er hörð fallbarátta þar sem Njarðvík þarf að rífa sig upp ef þessir margföldu Íslandsmeistarar ætla ekki að falla í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Leikurinn í gær fór ágætlega af stað, Njarðvíkingar virtust vel stemmdir og stóðu í Stjörnumönnum í fyrsta leikhluta þar sem liðin skiptust á að leiða. Staðan var jöfn eftir fyrsta leikhluta (19:19).

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Í öðrum leikhluta var áfram jafnræði með liðunum en Stjarnar fór inn í hálfleik með sjö stiga forystu eftir tvær þriggja stiga körfur í lok leikhlutans (42:35).

Stjarnan jók forystuna í 60:51 í þriðja leikhluta og ljóst að síðasti leikhluti yrði brekka fyrir Njarðvíkinga.

Njarðvíkingar börðust vel og minnkuðu muninn í tvö stig í fjórða leikhluta (72:70) þegar þrjár og hálf mínúta var eftir. Því miður gekk ekkert upp hjá Njarðvíkingum á lokamínútunum og þeir gerðu ekki fleiri stig á meðan Stjarnan skoraði tíu stig og lauk leiknum því 82:70.

Frammistaða Njarðvíkinga: Antonio Hester 17/10 fráköst, Kyle Johnson 16/4 fráköst, Rodney Glasgow Jr. 14, Mario Matasovic 10/9 fráköst, Logi  Gunnarsson 6, Ólafur Helgi Jónsson 3, Jón Arnór Sverrisson 2, Maciek Stanislav Baginski 2, Gunnar Már Sigmundsson 0, Veigar Páll Alexandersson 0, Baldur Örn Jóhannesson 0, Rafn Edgar Sigmarsson 0.


Grindvíkingar tóku á móti ÍR í gær í HS Orku höllinni. Leikurinn var jafn og spennandi en Grindavík hafði betur 79:76.

Grindavík leiddi meirihluta fyrsta leikhluta en ÍR-ingar voru þó aldrei langt undan og munaði einu stigi á liðunum þegar annar leikhluti fór af stað (16:15)

Baráttan hélt áfram en í öðrum leikhluta snerust hlutverkin við, ÍR náði forystu og nú var komið að Grindvíkingum að elta. Staðan í hálfleik 37:38.

Hart var barist í þriðja leikhluti og hvorugu liði tókst að rífa sig frá hinu. Staðan var jöfn fyrir fjórða leikhluta (59:59) og ljóst að það yrði barist fram á síðustu sekúndu.

ÍR-ingar náðu þrettán stiga forystu um miðjan fjórða leikhluta (76:63) og útlitið orðið dökkt hjá heimamönnum. Grindvíkingar gáfust hins vegar ekki upp og lokuðu algerlega á sókn gestanna, sem skoraði ekki fleiri stigi í leiknum á meðan Grindavík gerði sextán stig og landaði góðum sigri (79:76).

Grindvíkingar eru í sjöunda sæti deildarinnar með jafn mörg stig og Tindastóll sem er í því sjötta.

Frammistaða Grindvíkinga: Amenhotep Kazembe Abif 19/15 fráköst, Kristinn Pálsson 17/6 fráköst/9 stoðsendingar, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 15/6 fráköst/3 varin skot, Ólafur Ólafsson 12/5 fráköst/7 stoðsendingar, Bragi Guðmundsson 9/4 fráköst, Jens Valgeir Óskarsson 3, Kristófer Breki Gylfason 2/4 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 2, Magnús Engill Valgeirsson 0, Sverrir Týr Sigurðsson 0, Hafliði Ottó Róbertsson 0, Þorleifur Ólafsson 0.