Íþróttir

Daníel Leó meiddist í sigrinum á WBA
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 16. janúar 2021 kl. 11:45

Daníel Leó meiddist í sigrinum á WBA

Blackpool áfram í FA-bikarnum

Daníel Leó Grétarsson átti endurkomu í byrjunarlið Blackpool þegar liðið mætti úrvalsdeildarliði West Bromwich Albion í FA-bikarnum á Englandi um síðustu helgi. Blackpool sem leikur í D-deild enska boltans sýndi sínar bestu hliðar og að venjulegum leiktíma loknum var staðan jöfn, 2:2. Því var farið í framlengingu þar sem ekkert mark var skorað en að lokum fagnaði lið Grindvíkingsins sigri eftir vítaspyrnukeppni.

Daníel Leó átti fínan leik í vörninni og lék í 90 mínútur en var skipt út af fyrir framlenginguna. Með sigrinum er Blackpook komið í fjórðu umferð bikarsins og mætir úrvalsdeildarliði Brighton þann 23. janúar.

Í samtali við VF sagði Daníel að leikurinn hafi getað fallið hvoru megin, hann hafi verið jafn og bæði lið hafi fengið sín færi.

„Það er mikið sjálfstraust í liðinu og við vorum vissir að við gætum strítt þeim aðeins. 

Því miður þurfti ég að fara meiddur útaf í framlengingunni í bikarleiknum og kom í ljós að þetta var verra en búist var við. Það sem ég einbeiti mér að næstu vikurnar er að verða aftur heill.“
Í Bretlandi er slæmt ástand vegna Covid-19 og harðar sóttvarnaraðgerðir í gangi. „Frá því að við komum hingað út hefur allt verið meira og minna í lás. Þess vegna höfum við lítið getað skoðað okkur um. Mikið er um smit hérna á Bretlandi eins og margir vita og erum við fjölskyldan því mikið heima og þökkum fyrir að vera heimakær.
Það er ekkert með hefbundnu sniði í ár. Mörgum leikjum hefur verið frestað og erfitt er að halda uppi klefastemmningu þar sem við þurfum að koma tilbúnir á æfingu og sturta okkur heima,“ sagði Daníel Leó að lokum.