Íþróttir

Búið að stofna rafíþróttadeild innan Keflavíkur
Frá stofnfundi rafíþróttadeildar Keflavíkur. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 29. október 2020 kl. 09:10

Búið að stofna rafíþróttadeild innan Keflavíkur

Í gær var rafíþróttadeild formlega stofnuð innan Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags. Rafíþróttadeildin hefur starfað undir merkjum knattspyrnudeildar um tíma en með stofnun hennar eru nú níu deildir starfræktar innan félagsins.

Stofnfundurinn var fámennur enda samkomutakmarkanir í gildi og var aðgengi að fundinum haldið í lágmarki. Einar Haraldsson, framkvæmdastjóri og formaður aðalstjórnar, stýrði fundinum og íþróttastjóri félagsins, Hjördís Baldursdóttir, var ritari.

Tillaga um fyrstu stjórn deilarinnar var einróma samþykkt og hana skipa Arnar Már Halldórsson, formaður, Ólafur Þór Berry, Elvar Bjarki Friðriksson, Birna Ármey Þorsteinsdóttir, Jónas Guðni Sævarsson, Davíð Stefánsson, Sindri Kristinn Ólafsson og Nacho Heras Anglada.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Einar bar nýstofnaðri deild góðar kveðjur aðalstjórnar og með kveðjunni fylgdi styrkur upp á 500 þúsund, þá bauðst aðalstjórn að veita deildinni lán til að standa straum að tölvukaupum til að hægt verði að koma starfinu í gang sem fyrst.

Rafíþróttir hafa verið að ryðja sér til rúms á undanförnum árum og fjölmargir leika tölvuleiki sér til ánægju. Meðal verkefna rafíþróttadeildarinnar verður að stýra æfingum faglega þannig að iðkendur fái leiðbeiningar aðila sem þekkja vel til. Þá verður lögð áhersla á forvarnir, börnum kennt að temja sér hóf við tölvunotkun og foreldrar virkjaðir til þátttöku í tómstundum barna sinna en þeir hafa oft litla hugmynd um hvað tölvuleikir barnanna snúast um.

Rafíþróttadeildin mun vera með æfingaaðstöðu í 88 húsinu þar sem búið er að útbúa sérhannað rými fyrir hana. Að hafa deildina inn í félagsmiðstöð sveitarfélagsins hefur sína kosti en sá aldurshópur sem sækir Fjörheima (88 húsið) er mjög virkur í rafíþróttum og tölvuleikjum. Því er heppilegt að hvetja þá sem eru heima í tölvunni að mæta á skipulagðar æfingar, hitta sína jafnaldra og eiga samskipti sín á milli.

Fyrsta stjórn rafíþróttadeildar Keflavíkur. Davíð Stefánsson, Birna Ármey Þorsteinsdóttir, Elvar Bjarki Friðriksson, Jónas Guðni Sævarsson, Sindri Kristinn Ólafsson og Arnar Már Halldórsson. Á myndina vantar þá Ólaf Þór Berry og Nacho Heras Anglada.