Íþróttir

Bond, Siggi Bond
Siggi lét sér ekki nægja að vera kallaður Bond heldur fór hann með málið alla leið í mannanafnanefnd sem samþykkti það nú nýlega. VF-mynd: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 9. september 2021 kl. 09:03

Bond, Siggi Bond

Sigurður Gísli Bond Snorrason ber ekki aðeins nafn njósnara hennar hátignar heldur hefur líf hans einnig verið eins og eitthvað sem maður myndi halda að gerðist aðeins í kvikmyndum – kannski ekki alveg jafn glysgjarnt og stórbrotið og það sem nafni hans, James Bond, afrekar á hvíta tjaldinu en ævintýralegt engu að síður.

Sigurður Gísli, eða Siggi Bond eins og hann er gjarnan kallaður, er úr Hafnarfirði og uppalinn í FH. Siggi varð Íslandsmeistari með þeim árið 2015 en síðan fór að halla á ógæfuhliðina og fyrr en varði var hann kominn á kaf í óreglu og neyslu. Siggi náði svo botninum árið 2020 þegar hann var handtekinn við að ræna apótek í Amsterdam.

Þetta atvik varð til þess að Sigga Bond tókst að snúa við þessu líferni og síðustu tvö ár hefur hann verið einn af lykilmönnum knattspyrnuliðs Þróttar sem um síðustu helgi vann sér sæti í næstefstu deild í fyrsta sinn í sögu félagsins. Víkurfréttir settust niður með Sigga og fengu að heyra það sem á daga hans hefur drifið.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Íslandsmeistarar 2015.

Til hamingju með að vera komnir í Lengjudeildina. Hvernig finnst þér tímabilið búið að vera?

„Takk fyrir það. Þetta er búið að ganga mjög vel, við ættum að vera með miklu fleiri stig finnst mér en við höfum nógu mörg svo það þarf ekkert að kvarta núna,“ segir Siggi.

„Það var hrikalegt að tapa á móti Völsungi og ömurlegt að vera í banni í þeim leik – en það vakti okkur allavega og við sáum að við þyrftum að vinna næsta leik. Liðið er gott og þetta er skemmtilegur hópur, klefinn er mjög góður. Svo það er ekki yfir neinu að kvarta.“

Svo ætti þjálfarinn að kunna að berja stemmninguna í liðið.

„Já, Hemmi er auðvitað geggjaður og það eru allir ánægðir með hann. Svo má ekki gleyma Marteini [framkvæmdastjóra] og Gunna Helga [liðsstjóra], þeir eru að vinna frábært starf þarna í Vogunum.“

Hemmi Hreiðars er þekktur stemmningsmaður og hann hefur heldur betur náð upp stemmningu í liði Þróttar.

Siggi „Bond“

Yfir í aðra sálma. Nafnið á þér, Siggi Bond, hvernig er það tilkomið?

„Þetta er vegna þess að afi minn hét líka Siggi og hann var kallaður þetta á sínum tíma. Hann þótti svo líkur Sean Connery. Upphaflega vildi mamma skíra mig þessu nafni en pabbi var ekki alveg tilbúinn í það – en þetta fór loksins í gegn núna.“

Siggi lét sér nefnilega ekki nægja að vera kallaður Bond heldur fór hann með málið alla leið í mannanafnanefnd sem samþykkti það nú nýlega.

Hvernig gekk það, að fá nafnið skráð?

„Það gekk svona lala. Þjóðskrá neitaði þessu fyrst en mannanafnanefnd samþykkti það svo. Það tók einhvern mánuð að fá þetta í gegn.

Þeir geta verið helvíti erfiðir hafði ég heyrt, það var aðeins minna vesen en ég hélt að fá þetta í gegn. Ég átti ekki von á að fá þetta samþykkt en þetta fór í gegn,“ segir Siggi sem heitir nú fullu nafni Sigurður Gísli Bond Snorrason samkvæmt þjóðskrá.

Siggi fékk að æfa með Þrótturum fyrir tímabilið 2020, „... og ég var bara ennþá drullugóður, þannig að þeir vildu fá mig.“


Spyrnti sér frá botninum

Þú hefur nú ekki átt neitt síður ævintýralegt líf en njósnari hennar hátignar. Ertu til í að spjalla aðeins um það? Varstu ekki kominn í tómt rugl og óreglu?

„Jú, það var smá vesen á kallinum,“ segir Siggi og hlær. „Það var búið að vera mikið rugl í gangi frá 2016 þangað til í byrjun 2020. Það var nú frægt þegar ég endaði í tómu rugli í apóteki úti í Amsterdam en eftir það sneri ég blaðinu algerlega við. Það voru fjögur ár þarna í tómri steypu, mikil neysla og ekkert að gerast.“

Var ekkert erfitt að snúa við blaðinu?

„Nei, ekki á þessum tímapunkti. Ég komst á svo mikinn botn að það var ekkert svo erfitt að spyrna sér frá honum – en það þurfti eitthvað svona mikið til. Svo má ekki gleyma fjölskyldunni minni. Ef það hefði ekki verið fyrir fjölskylduna mína, sem stóð alltaf við bakið á mér í gegnum alla skellina, þá hefði ég aldrei snúið þessu við,“ segir Siggi sem þurfti að sitja inn í þrjá daga. „Það var nú ekki meira en það.“

Siggi og unnusta hans, Eyrún Jónsdóttir, eru hrikalega spennt fyrir erfingjanum.


Meðferð í Krýsuvík og endurhæfing hjá VIRK

„Eftir þessa uppákomu fór ég í meðferð í Krýsuvík í tvo mánuði. Svo heyrði ég í Binna Gests sem þá var að þjálfa Þrótt en hann var giftur frænku minni. Binni leyfði mér að æfa með Vogunum og ég var bara ennþá drullugóður, þannig að þeir vildu fá mig.“

Siggi hefur algerlega vent sínu kvæði í kross og snúið baki við fyrra líferni. Hann hefur verið í endurhæfingu hjá VIRK og er að byrja í nýju starfi við að selja tryggingar. Svo hefur hann fest ráð sitt, býr með konu í Reykjavík og það er barn á leiðinni.

„Við höfum verið saman frá því síðasta sumar og hún er úr Vogunum ... í Reykjavík. Þetta er tóm hamingja, við búum saman og þetta gerist allt svo hratt.

Við erum hrikalega spennt fyrir þessu, hún á að eiga í byrjun desember og það er strákur á leiðinni. Það er búið að panta Manchester United búninginn með Ronaldo, númer sjö, aftan á,“ segir Siggi sem leikur auðvitað í treyju númer sjö – ekki núll-núll-sjö, bara sjö.