Íþróttir

Bikarmeistaratitill karla í Ljónagryfjuna
Fotios Lampropoulos var illráðanlegur undir körfunni og skoraði tuttugu stig, hirti fimm fráköst og gaf þrjár stoðsendingar. Myndir: Jón Björn Ólafsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 18. september 2021 kl. 22:08

Bikarmeistaratitill karla í Ljónagryfjuna

Njarðvíkingar bæta nýjum fána á vegginn en þeir eru bikarmeistarar karla í körfuknattleik árið 2021 eftir að hafa lagt Stjörnumenn að velli 97:93 í úrslitaleik VÍS-bikarsins sem fram fór í Smáranum í kvöld. Þar með lýkur sextán ára bið Njarðvíkinga eftir bikartitli.

Leikurinn var býsna fjörugur og jafn framan af en Njarðvíkingar fóru inn í annan leikhluta með þriggja stiga forystu eftir að Logi Gunnarsson setti niður þrist í blálok fjórðungsins. Staðan eftir fyrsta leikhluta 29:26.

Áfram hélt leikurinn að vera í járnum og það var mikið stuð í sóknarleik beggja liða. Á þriðju mínútu leikhlutans komust Stjörnumenn í 38:36 en þá tóku Njarðvíkingar til sinna ráða og skoruðu sex næstu stig og eftir því sem leið á fjórðunginn fór að draga í sundum með liðunum. Njarðvík náði mest níu stiga forskoti á Stjörnuna og fór með fimm stiga forystu inn í hálfleikinn, 54:49.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Í þriðja leikhluta léku Njarðvíkingar við hvern sinn fingur og lögðu grunninn að sigri, varnarleikur þeirra sló á alla sóknartilburði Stjörnumanna sem náðu ekki að skora nema fimmtán stig í fjórðungnum. Á sama tíma bætti sókn þeirra grænklæddu 26 stigum í púkkið og Njarðvíkingar leiddu því með 80 stigum gegn 64 fyrir síðast fjórðunginn.

Snjólfur Marel Stefánsson byrjaði fjórða leikhluta með því að setja niður þriggja stiga körfu og koma Njarðvík í nítján stiga forystu, Stjarnan svaraði með þristi en þá setti Logi annan þrist niður og staðan orðin 86:67 fyrir Njarðvík.

Garðbæingar voru ekki búnir að syngja sitt síðasta og nú kom góð rispa hjá Stjörnumönnum sem skoruðu fimmtán stig án þess að Njarðvík næði að svara fyrir sig. Staðan skyndilega orðin 86:82, fjögurra stiga munur og leikurinn aftur í járnum. Njarðvíkingar hleyptu Garðbæingum hins vegar ekki nær sér og unnu að lokum góðan fjögurra stiga sigur.

Dedrick Deon Basile var stigahæstur Njarðvíkinga í kvöld en hann gerði 24 stig auk þess að hirða sex fráköst og eiga sjö stoðendingar.

Njarðvíkingar mæta því til alls líklegir þegar Domino's-deildin hefst á ný en þeir hafa sýnt það að liðið ætlar sér að berjast um titla í vetur.