Max Norhern Light
Max Norhern Light

Íþróttir

Besta andlega meðalið
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
sunnudaginn 29. september 2019 kl. 08:42

Besta andlega meðalið

„Ég er búinn að æfa lengi en ég byrjaði í ræktinni til þess að þyngjast en ég var alltaf mjög léttur og grannur. Þá fór ég að lyfta og sá hvað það hafði góð áhrif. Ég hélt áfram og svo þegar aldurinn færist yfir þá finn ég að brennslan er orðin hægari og því held ég mér í formi með því að fara í ræktina reglulega. Þetta er besta andlega meðalið fyrir hausinn,“ segir Davíð Þór Penalver en hann segist koma þrisvar til fimm sinnum í viku í ræktina.

„Ég byrja á brettinu til að vinna með þolið og svo lyfti ég. Stundum tek ég einn dag í brennslu en mér finnst langskemmtilegast að lyfta. Ég hef mikinn áhuga á líkamsrækt. Þetta heldur mér gangandi því ég er bak­veikur og ef ég sleppi því að lyfta þá fæ ég í bakið. Ég borða sykur og hveiti í lágmarki en ef mig langar í pitsu þá fæ ég mér. Ég held að það sé best fyrir þá sem eru að hugsa um að byrja í ræktinni að fara rólega af stað, jafnvel bara byrja á tíu mínútna gönguferð úti. Taka eitt út í einu í mataræði, sleppa til dæmis gosi en ekki hætta öllu því þá fellurðu. Sumir þora ekki að mæta í ræktina, sjálfur fór ég með fósturpabba mínum og það hjálpaði mér. Mér finnst gott að hafa mína eigin tónlist í eyrunum og vera í mínum eigin heimi í ræktinni,“ segir Davíð Þór.