Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Íþróttir

Ástralskt hat-trick í ótrúlegum bikarleik
Ástralinn Joey Gibbs skoraði þrennu, hat-trick, í fyrri hálfleik. Mynd úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 15. september 2021 kl. 20:41

Ástralskt hat-trick í ótrúlegum bikarleik

Keflavík í undanúrslit Mjókurbikarsins í fyrsta sinn síðan 2014. Mæta ÍA á Skaganum

Ástralski undradrengurinn Joey Gibbs skoraði hat-trick í fyrri hálfleik þegar Keflvíkingar tryggðu sér sæti í undanúrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu.

Það var heldur betur fjör í Kórnum í kvöld þegar Keflavík mætti þar öðru sinni á skömmum tíma en Keflavík og HK áttust þar við um síðustu mánaðarmót. Þeirri viðureign lyktaði með 1:0 sigri heimamanna en í kvöld náðu Keflvíkingar fram hefndum og sló lið HK út úr bikarnum.

Leikurinn byrjaði fjörlega og bæði lið sköpuðu sér færi á upphafsmínútunum. Það var svo á 13. mínútu að Joey Gibbs braut ísinn þegar hann stökk manna hæst og skallaði góða fyrirgjöf Dags Inga Valssonar í mark HK og Keflvíkingar komnir í forystu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Gibbs var svo aftur á ferðinni skömmu síðar þegar vörn HK gerðist værukær og eftirlét Ástralanum boltann. Hann kunni varnarmönnum HK bestu þakkir og tvöfaldaði forystu gestanna (17'), 0:2 fyrir Keflavík.

Heimamenn voru ekki alveg búnir að segja sitt síðasta og fengu dæmda vítaspyrnu mínútu eftir annað mark Keflavíkur. HK skoraði örugglega úr vítinu og staðan orðin 2:1, veisla fyrir áhorfendur.

Leikmenn héldu sýningunni áfram og á 33. mínútu gerðust varnarmenn HK aftur sekir um kæruleysi í öftustu línu, nú átti markvörður þeirra slaka sendingu beint í fæturna á Degi Inga sem sendi góðan bolta á Gibbs. HAT-TRICK! og staðan orðin 1:3.

Fjórum mínútum síðar átti HK sendingu fyrir mark Keflvíkinga en vörnin var hálfsofandi og gaf Keflvíkingnum fyrrverandi, Stefan Alexander Ljubicic, óþarflega mikinn tíma til að athafna sig og skora annað mark heimamanna. Staðan 2:3 í ótrúlegum fyrri hálfleik.

Seinni hálfleikur fór ekki eins fjörlega af stað og sá fyrri en engu að síður var nóg í gangi. HK-ingar gerðust nærgöngulir við mark Keflavíkur og í tvígang þurfti Sindri Kristinn Ólafsson að taka á honum stóra sínum í marki Keflvíkinga.

Eftir stundarfjórðungs leik í seinni hálfleik fengu Keflvíkingar hornspyrnu sem HK náði ekki að hreinsa frá og barst boltinn til Ástbjarnar Þórðarsonar sem hikaði ekkert og negldi í netið. 2:4 og útlitið bjart fyrir Keflavík.

Ástbjörn heldur áfram að gera góða hluti með Keflvíkingum, hann skoraði fjórða mark Keflavíkur í kvöld.

Harka færðist í leikinn og spennan var síður en svo liðin hjá því heimamenn neituðu hreinlega að gefast upp. Fimm mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma náðu Keflvíkingar ekki að koma boltanun frá hættusvæðinu og Stefan Alexander nýtti sér það til hins ýtrasta og skoraði annað mark sitt og þriðja mark HK. 3:4 og lítið eftir.

Heimamenn settu allan kraftinn í sóknina síðustu mínúturnar og við það fækkaði í vörninni hjá þeim. Keflvíkingar komust í tvígang í skyndisókn eftir þunga sókn HK, í fyrra skiptið gerði markvörður þeirra vel og varði gott skot Ara Steins Guðmundssonar en í seinni skyndisókninni gerði Ari Steinn engin mistök þegar hann slapp inn fyrir vörn HK og gerði endanlega út um vonir þeirra. Lokatölur 3:5 í mögnuðum átta marka leik, bikarleik eins og þeir gerast bestir. Keflavík er því komið í undarúrslit Mjólkurbikars karla í fyrsta sinn síðan 2014. 

Dregið var í undanúrslitin í kvöld í beinni útsendingu á Stöð 2 sport. Keflavík mætir ÍA á Skipaskaga og Víkingur sækir Vestra heim til Ísafjarðar en Vestri vann Val í 8 liða úrslitum.

Ari Steinn rak síðasta naglann í kistu HK þegar hann skoraði fimmta og síðasta mark Keflvíkinga í uppbótartíma.