Íþróttir

Aron Jóhanns frábær í sigri Grindvíkinga
Aron Jóhannsson, fyrirliði Grindvíkinga, sýndi frábæra takta gegn KV í gær. Myndir úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 24. ágúst 2022 kl. 09:05

Aron Jóhanns frábær í sigri Grindvíkinga

Fyrirliði Grindvíkinga, Aron Jóhannsson, fór fyrir sínum mönnum í gær þegar Grindavík hafði betur gegn KV í Lengjudeild karla í knattspyrnu. Á sama tíma tapaði Þróttur stórt fyrir Aftureldingu og er þá ljóst að Þróttarar eru fallnir í 2. deild. Víðismenn unnu stórsigur á Vængjum Júpiters í 3. deildinni og eru efstir eftir átján umferðir á betra markahlutfalli en Sindri sem er í öruð sæti. Dalvík/Reynir situr í þriðja sæti, stigi á eftir Víði og Sindra, en þeir eiga leik til góða þar sem leik Dalvíkur/Reynis og Kormáks/Hvatar, sem átti að fara fram á Blönduósvelli, var frestað vegna harmleiksins sem átti sér stað á Blönduósi um síðustu helgi.

KV - Grindavík 1:3

Grindvíkingar áttu ekki góðan fyrri hálfleik og voru alltaf skrefinu á eftir KV. Grindavík fékk þó ekki mark á sig fyrr en rétt undir lok hálfleiksins (42') en það var nóg til að vekja risann. Aron Jóhannsson, sem átti stórleik í gær, jafnaði metin á lokamínútu fyrri hálfleiks með stórglæsilegu marki (45').

Það var allt annað Grindavíkurlið sem mætti til seinni hálfleiks og jöfnunarmarkið kveikti augljóslega á mönnum, það sama verður ekki sagt um leikmenn KV sem voru slegnir út af laginu. Grindvíkingar tóku leikinn yfir og Tómas Leó Ásgeirsson kom þeim yfir snemma í seinni hálfleik eftir sendingu frá fyrirliðanum (51') sem fékk gullið tækifæri skömmu síðar til að skora annað mark sitt en KV bjargaði þá á línu. Dagur Ingi Hammer skoraði svo lokamarkið eftir frábæran undirbúning Símonar Loga Thasapong (59').

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Grindavík hækkaði sig um eitt sæti með sigrinum og situr í níunda sæti deildarinnar.

Dagur Ingi skoraði lokamark Grindvíkinga í gær eftir góðan undirbúning Símonar Loga Thasapong.

Afturelding - Þróttur 4:0

Þrátt fyrir að vera að berjast fyrir tilveru sinni í Lengjudeild mættu Þróttarar illa stemmdir í leikinn gegn Aftureldingu og heimamenn sýndu mikla yfirburði frá fyrstu mínútu. Þróttarar voru yfirspilaðir og tvo mörk Aftureldingar í hvorum hálfleik gerðu út um vonir Þróttar um að ná að bjarga sér frá falli. Einhver uppgjöf virðist hafa verið komin í leikmenn sem lögðu sig ekki fram í leiknum og er Þróttur fallið fyrir vikið þrátt fyrir að fjórar umferðir séu enn eftir í deildinni.

Brynjar Gestsson, þjálfari Þróttar, á ærið verk fyrir höndum ætli Þróttur sér aftur upp í Lengjudeildina.

Víðir - Vængir Júpiters 4:0

Víðismenn áttu ekki í neinum vandræðum með botnlið Vængja Júpiters í 3. deild karla í gær og styrktu stöðu sína í toppbaráttunni. Sindri frá Hornafirði, sem var á toppnum fyrir þessa umferð, missteig sig og náði aðeins jafntefli gegn KFG, við það komst Víðir upp í efsta sætið en liðin eru jöfn að stigum. Ekki hefur verið fundinn tími fyrir leik Kormáks/Hvatar og Dalvíkur/Reynis en Dalvík/Reynir er aðeins einu stigi á eftir Víði og Sindra í þriðja sæti. Geri Dalvík/Reynir jafntefli þá jafna þeir efstu lið að stigum en er með lakara markahlutfall og situr því áfram í þriðja sæti, það verður þó að telja líklegt að þeir fari með sigur á Kormáki/Hvöt og taki efsta sætið.

Mörk Víðis: Ari Steinn Guðmundsson (13'), Atli Freyr Ottesen Pálsson (16'), Ísak John Ævarsson (72') og Ási Þórhallsson (90'+2).