Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Íþróttir

Árangursríkt samstarf þjálfara Keflvíkinga
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 7. nóvember 2020 kl. 07:34

Árangursríkt samstarf þjálfara Keflvíkinga

Þurftum að vera sammála

Þeir Eysteinn Húni Hauksson og Sigurður Ragnar Eyjólfsson stýrðu í sameiningu karlaliði Keflavíkur í Lengjudeildinni í ár og það er óhætt að segja að samstarf þeirra hafi skilað frábærum árangri því Keflavík stóð uppi sem deildarmeistari og vakti athygli fyrir beittan og skemmtilegan sóknarleik í sumar. Þótt þeir hafi stundum haft misjafnar skoðanir á hlutunum voru þeir á einu máli um að þeir yrðu að vera sammála um þær ákvarðanir sem voru teknar. Víkurfréttir tóku tal af þeim félögum eftir að ljóst var að Keflvíkingar munu leika í efstu deild karla að nýju á næsta ári.

„Þetta ár hefur verið einstakt og verður ábyggilega lengi talað um það í sögunni sem skrýtið – og við þurftum að takast á við það,“ segir Eysteinn. „Það tókst ekki verr en svo að við vorum efstir þegar mótinu var slaufað.“

Lögðu áherslu á skemmtilegan sóknarbolta

„Við höfum heyrt það víða að fólk hafi haft gaman að þeim bolta sem við spiluðum. Við vildum spila djarft og skoruðum mörg mörk, fengum í staðinn kannski fleiri mörk á okkur en hin toppliðin – en við vildum spila fótbolta sem fólk vill koma að horfa á, að það þurfi ekki að draga það á völlinn.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

– Hvernig gekk undirbúningurinn fyrir tímabilið?

„Hann gekk ofboðslega vel alveg frá byrjun,“ svarar Sigurður Ragnar. „Við unnum flesta okkar leiki í vetur og spiluðum gegn nokkrum Pepsi Max-deildarliðum. Það fór að fúnkera mjög fljótt hvernig við vildum spila. Reyndar vantaði okkur framherja, við vorum meira og minna að spila með kantmenn frammi í allan vetur en samt vorum við að vinna leiki, spila sóknarbolta og skora mörk. Við vissum að ef við myndum finna réttu framherjana til að styrkja liðið þá yrði það bara ennþá sterkara og það tókst. Útlendingarni þrír pössuðu vel inn í það sem við vorum að gera og við urðum öflugri eftir því sem leið á undirbúnings- og keppnistímabilið. Við vorum að spila okkar besta fótbolta undir lokin.

Við höfðum góða breidd í hópnum miðað við Lengjudeildarliðin, það verður erfiðara í Pepsi Max-deildinni þar sem flest liðin eru með mjög mikla breidd og við höfum kannski úr minna fjármagni að moða þannig að við verðum að standa okkur vel á leikmannamarkaðnum. Vonandi vilja einhverji ganga til liðs við okkur og taka þátt í að byggja upp og búa til gott lið.“

Keflavík lék leiftrandi sóknarbolta í sumar og ástralinn Joey Gibbs reyndist mikill happafengur. Hann varð markahæstur í deildinni og átti ekki langt í land með að slá markamet sem hefur staðið síðan 1976.

– Þið eruð ekkert að missa leikmenn frá ykkur, er það?

„Það gætu kannski orðið einhverjar breytingar,“ segir Siggi og Eysteinn bætir við: „Þetta er allt á svolítið gráu svæði fyrst eftir tímabil, einhverjir að klára samninga og aðrir eftir næsta. Þá er reynt að tryggja þá til lengri tíma. Þetta er suðupottur núna hjá öllum félögum.

Svo erum við með nokkra unga og góða eins og Davíð Snæ sem hafa öðlast mikilvæga reynslu eftir að hafa fengið tækifæri 2018 þegar margir lykilleikmenn duttu út. Fengu mikla eldskírn þá og búa að því í dag. Nú svo eru strákar að ganga upp úr öðrum flokki sem hafa verið í æfingahóp hjá okkur og það er stefnan hjá okkur að ef strákar á þessum aldri hafa rétt hugarfar og eitthvað til brunns að bera þá fá þeir tækifæri, í það minnsta til að æfa með liðinu. Svo er þetta bara hörð samkeppni, það fær enginn neitt gefins.“

„Við notuðum 27 leikmenn í sumar sem er nokkur fjöldi,“ segir Siggi. „Meðal þeirra voru nokkrir strákar úr öðrum flokki sem fengu tækifæri til að koma inn á í Lengjudeildinni – sem er jákvætt. Svo má ekki gleyma að við erum með mjög ungt lið, undanfarin ár hafa ungir leikmenn fengið tækifæri með Keflavík og náð að vaxa og þroskast eins og Eysteinn var að segja um Davíði Snæ. Þetta er þriðja tímabilið hans og hann er að spila nánast alla leiki.“

Maður í manns stað

Eysteinn og Siggi segja á að álagið hafi verið mikið á leikmenn í sumar, þeir hafi verið að leika allt að sjö leiki á fjórum vikum, og það hafi verið gott að búa að góðum undirbúningi til að halda mönnum í standi – og þegar menn duttu út þá komu aðrir inn sem náðu að valda hlutverkinu.

„Maggi, fyrirliðinn okkar og sá sem var valinn besti leikmaður liðsins í fyrra, meiðist í fyrsta leik sumarsins og er meira og minna frá í allt sumar,“ bendir Siggi á. „Hann kom ekki inn fyrr en í restina – en það kom maður í manns stað og Anton Guðlaugs stóð sig mjög vel í þeirri stöðu. Það komu upp meiðsli hjá Frans og Kian, alltaf stigu menn inn, Adam Pálsson var seldur og Ari Steinn steig þá upp á kantinum. Við vorum mjög ánægðir með það að menn stigu inn í hlutverkin sín þegar á þurfti.“

Ari Steinn Guðmundsson átti góða innkomu í lið Keflavíkur í sumar.

Eyddu miklum undirbúningstíma í sóknarleikinn

Keflvíkingar byrjuðu á að leggja áherslu á sóknarleikinn í undirbúningi tímabilsins, að æfa hann og móta. Þegar átti að fara að taka varnarleikinn í gegn kom Covid í veg fyrir það.

„Eins og sést kannski þá skoruðum við 57 mörk í deildinni, þrjú mörk að meðaltali í leik, en fengum kannski aðeins of mörg mörk á okkur,“ segir Siggi. „Við vorum nálægt því að slá markametið í deildinni.“

„Ég hef nú sagt að ef einhver heldur því fram að við höfum sloppið auðveldlega, af því að mótið var flautað af, þá held ég að við höfum frekar verið stoppaðir af í að ná sögulegu markameti,“ segir Eysteinn. „Ég hefði ekki verið hræddur við að spila áfram en ég held að þetta hafi verið rétt ákvörðun. Ég held að það hafi verið sanngjarnara að láta þessa tuttugu leiki telja heldur en að fara að spila eitthvað allt annað mót, með allt öðrum leikmönnum hjá meirihluta liðanna. Það hefði skekkt þetta allt of mikið að mínu mati.“

„Nú tökum við alla vega einn mánuði í frí,“ segir Siggi. „Þetta er búið að vera ofboðslega langt og strangt tímabil. Hefur reynt mikið á hugarfar leikmanna og þolinmæði, erlendu leikmennirnir eru búnir að vera lengi í burtu frá fjölskyldum sínum og kærustum.

Við búum við lengsta undirbúningstímabil í heimi hér á Íslandi, það verður alveg nógu langt á næsta tímabili líka. Við gerum ráð fyrir að vera með flesta leikmennina okkar áfram svo liðið á að vera ágætlega mótað og ég held að þeir verði vel undirbúnir fyrir næsta ár.“

Þeir félagar voru í spjalli í Suðurnesjamagasíni vikunnar þar sem þeir Eysteinn og Sigurður Ragnar gera upp knattspyrnutímabilið og ræða fótboltann á þessum undarlegu tímum kórónuveirunnar. Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan.