Uppbyggingarsjóður 2022
Uppbyggingarsjóður 2022

Íþróttir

Aníta Lind kom Keflvíkingum á bragðið
Aníta Lind Daníelsdóttir skoraði opnunarmark leiksins með góðu einstaklingsframtaki. Myndir úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 13. september 2022 kl. 09:44

Aníta Lind kom Keflvíkingum á bragðið

Keflavík hafði sigur þegar liðið mætti Þrótti í fimmtándu umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í gær. Mörk frá Anítu Lind Daníelsdóttur, Amelíu Rún Fjeldsted og Snædísi Maríu Jörndsdóttur ásamt góðum varnarleik varþað sem skóp sigur Keflvíkinga sem fjarlægjast óðum fallsvæðið og eru nú í sjöunda sæti deildarinnar.

þróttur - Keflavík 2:3

Keflavík lék skynsamlega og lagði áherslu á sterkan varnarleik þar sem fyrirliðinn Kristrún Ýr Holm og Caroline Mc Cue Van Slambrouck voru í aðahlutverkum. Þróttur sótti meira en Keflavík varðist vel og beitti hröðum skyndisóknum við hvert tækifæri. Það var Aníta Lind Daníelsdóttir sem braut ísinn þegar hún vann boltann á vallarhelmingi Þróttar, brunaði upp og lét vaða á markið. Markvörður Þróttar náði ekki til boltans enda skotið gott og út við stöng, staðan 1:0 fyrir Keflavík (16').

Þróttarar settu enn meiri kraft í sóknina og vörnin hjá Keflavík hafði í nægu að snúast en í blálok hálfleiksins brunuðu Keflvíkingar í skyndisókn; Dröfn [Einarsdóttir] kom hratt upp hægri kant, sendi á Ana Paula Santos Silva, hún áframsendi til Amelíu Rúnar Fjeldsted sem tvöfaldaði forystuna (45').

Amelía Rún í leik gegn KR fyrr í sumar.

Þróttarar hófu seinni hálfleik með offorsi og minnkuðu muninn á 49. mínútu en Snædís María Jörundsdóttir svaraði að bragði með sínu fyrsta marki fyrir Keflavík (50'). Keflavík tók miðju og notaði sömu uppskrift og við annað markið; Dröfn geystist upp hægra megin, gaf á Ana Paula sem áframsendi nú á Snædísi Maríu og aftur orðin tveggja marka forysta Keflavíkur. Sú forysta átti eftir að haldast þar til í lokin þrátt fyrir linnulausa sókn Þróttar sem svaraði með marki á lokamínútu (90') en lengra komust heimakonur ekki og gestirnir tóku öll stigin með sér til Keflavíkur.

Sigurinn styrkir stöðu Keflavíkur í deildinni en Keflavík er nú sjö stigum fyrir ofan Aftureldingu, sem er næstneðst, og níu stigum fyrir ofan KR, sem er á botninum. Bæði eiga þau leik til góða.

Snædís María Jörundsdóttir hefur opnað markareikning sinn hjá Keflavík.