Optical Studio
Optical Studio

Íþróttir

Amelía  Rún Fjeldsted íþróttamaður Suðurnesjabæjar fyrir árið 2022
Amelía Rún Fjeldsted er íþróttamaður Suðurnesjabæjar 2022. VF-mynd: Hilmar Bragi
Föstudagur 13. janúar 2023 kl. 09:27

Amelía Rún Fjeldsted íþróttamaður Suðurnesjabæjar fyrir árið 2022

Amelía  er knattspyrnukona sem hefur á undanförnum árum verið að festa sig í sessi í byrjunaliði Bestudeildarliðs Keflavíkur. Í sumar spilaði Amelía sautján leiki með Keflavík og skoraði í þeim tvö mörk, auk þess að spila einn leik í Mjólkurbikarnum. Amelía var í sumar valin í verkefni U19 ára landslið Íslands og spilaði þar þrjá leiki og skoraði einn mark. Þess má geta að Amelía var aftur valin í hóp fyrir næsta verkefni U19 ára liðsins.

Þrátt fyrir ungan aldur var Amelía að klára sitt fimmta tímabil í meistaraflokki. Fyrsta leikinn spilaði hún aðeins fjórtán ára gömul.

Amelía í leik með Keflavík á síðasta tímabili. VF-mynd: JPK

Amelía er virkilega flott fyrirmynd fyrir yngri kynslóðina í Suðurnesjabæ og sýnir og sannar að með metnaði og elju eru allir vegir færir.

Bílakjarninn /Nýsprautun
Bílakjarninn /Nýsprautun

Benedikt Gunnarssyni var veitt viðurkenning íþrótta- og tómstundaráðs fyrir óeigingjarnt starf að íþrótta- og æskulýðsmálum í sveitarfélaginu. Benedikt hefur verið hluti af teymi Golfklúbbs Sandgerðis frá stofnun hans 1984. Verkefni Benedikt hafa verið allt frá því að moka holur og setja í þær málningarfötur í upphafi, byggja og laga klúbbhús eða taka þátt í uppbyggingu á nýjum átján holu golfvelli og alltaf var hann klár í að aðstoða og taka þátt.

Hann var einnig ásamt öðrum forsprakki af barna- og unglingastarfi golfklúbbsins, kenndi þar grunninn og þeystist svo með alla landshornanna á milli og óhætt að segja að líflegasti tími barna- og unglingastarfs klúbbsins hafi verið á þessum tíma.

Aðrir sem tilnefndir voru og hlutu viðurkenningu fyrir góðan árangur árið 2022:
Hammed Obafemi Lawal
Sigurður Óskar Sólmundarson
Salóme Róbertsdóttir