Íþróttir

Allavega tvö hundruð
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 14. október 2021 kl. 12:14

Allavega tvö hundruð

Arndís Snjólaug Ingvarsdóttir var heiðruð á lokahófi knattspyrnudeildar Keflavíkur um síðustu helgi en Arndís afrekaði í sumar að verða leikjahæsti leikmaður meistaraflokks kvenna frá upphafi. Arndís hefur leikið 158 leiki fyrir Keflavík og er hvergi hætt.

„Ég byrjaði tíu, ellefu ára gömul í fótbolta. Var fyrst í fótbolta á sumrin en alltaf í fimleikum á veturna,“ segir Arndís sem hefur alla tíð leikið með Keflavík. „Svo þegar ég byrjaði í fjórða flokki einbeitti ég mér algerlega að fótboltanum.“

Hvenær byrjaðir þú að leika með meistaraflokki?

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Það var sumarið 2011, rétt áður en ég varð sautján ára. Ég er á besta aldri núna og mun halda áfram á meðan heilsan leyfir – maður hættir ekki á meðan það er gaman.“

Arndís segir að tímabilið í sumar verið svolítið upp og niður. „Mér fannst óheppni einkenna leikina okkar, maður hefði oft viljað sjá betri ákvarðanir hjá dómurunum. Það gerist stundum en ég held að fleiri séu sammála mér í þeim málum.

Við enduðum tímabilið hins vegar mjög vel, við vorum ákveðnar að halda okkur uppi og gerðum allt sem við gátum. Í síðustu fimm leikjunum gáfum við allt í botn og enduðum sumarið mjög vel.“

Hjörtur Fjeldsted, aðstoðarþjálfari, Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari, Freyr Sverrisson, tækniþjálfari, og Óskar Rúnarsson, leikgreinandi. Á myndina vantar Sævar Júlíusson, markmannsþjálfara. Mynd: Keflavik.is


Í byrjun vikunnar kynnti Keflavík að búið væri að ná áframhaldandi samningum við þjálfarateymi meistaraflokks kvenna fyrir næstu leiktíð og mun Gunnar Magnús Jónsson þjálfa liðið áfram. Hjörtur Fjeldsted verður aðstoðarþjálfari, Óskar Rúnarsson leikgreinandi, Freyr Sverrisson tækniþjálfari og Sævar Júlíusson sinnir markmannsþjálfun.

Nú er Keflavík búið að gefa út þjálfarateymið fyrir næsta tímabil, hvernig líst þér á það?

„Gunni og Hjörtur verða áfram og ég held að það sé bara jákvætt. Gunni þekkir okkur stelpurnar vel og við hann, svo kom Hjörtur mjög vel inn í þetta núna á þessu tímabili.“

Arndís lætur finna fyrir sér í leik með Keflavík í sumar.


Lífið snýst um knattspyrnu

Arndís býr með kærastanum sínum, Orra Sigurði Ómarssyni, sem er einnig knattspyrnumaður og spilar með Val. Þau eru búin að vera saman í fimm ár og búa í Kópavogi, samt ætlar hún að vera áfram með Keflavík.

En hvað gerir Arndís fyrir utan fótboltavöllinn?

„Ég er sérkennari í leikskóla og var að byrja í mastersnámi í kennslufræðum. Ég er nýbyrjuð svo ég á tvö ár eftir af náminu og í framtíðinni langar mig að vinna með börnum með greiningar, það er stefnan.

Það er ekkert rosalega mikill frítími sem maður hefur með vinnu og fótbolta – og kærastinn í fótbolta líka. Við reynum að fara erlendis eftir tímabilið og ferðast aðeins. Annars er það þetta venjulega, að hitta vinkonurnar og fjölskylduna og gera eitthvað skemmtilegt saman. Mér finnst nú skemmtilegast að fara í ferðalög.“

Hvað heldurðu að þú eigir eftir að ná mörgum leikjum?

„Eigum við ekki að stefna á nálægt 200 leikjum, allavega það,“ segir leikjahæsti leikmaður meistaraflokks kvenna hjá Keflavík að lokum.