Íþróttir

Áhorfendur leyfðir á knattspyrnuleikjum
Áhorfendur á leik Keflavíkur og Fram. VF-mynd: Hilmar Bragi
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 21. september 2020 kl. 10:51

Áhorfendur leyfðir á knattspyrnuleikjum

Knattspyrnusamband Íslands hefur gefið út að áhorfendur verði leyfðir á nýjan leik á leikjum og öðrum viðburðum í öllum flokkum á vegum KSÍ. Ákvörðunin tekur samstundis gildi og því munu þeir leikir sem fara fram í dag vera með áhorfendum. Þetta er gert eftir samráð við sóttvarnaryfirvöld og verða nánari útfærslur varðandi áhorfendafjölda kynntar síðar í dag.

Þetta þýðir að áhorfendur verða leyfðir á leikjum Suðurnesjaliðanna Keflavíkur og Grindavíkur í Lengjudeild karla sem fram fara í dag:

Keflavík tekur á móti Þrótti á Nettóvellinum og hefst sá leikur klukkan 16:30. Knattspyrnudeild Keflavíkur tekur fram að félagsheimilið verður lokað og því engir Oddsborgarar fyrir leik.

Grindavík sækir Fram heim á Framvellinum og sá leikur hefst klukkan 19:15.

Frétt af vef KSÍ (mán. 21. sept. 2020:
Áhorfendur leyfðir á ný

Eftir frekara samráð við sóttvarnaryfirvöld hefur KSÍ ákveðið að leyfa áhorfendur á leikjum í öllum flokkum og á öðrum viðburðum á vegum KSÍ í samræmi við gildandi lög og reglugerðir. Ákvörðunin tekur strax gildi og nær því til þeirra leikja sem fara fram í dag, mánudag. Frekari útfærslur varðandi áhorfendafjölda munu koma fram í leiðbeiningum frá ÍSÍ, sem gefnar verða út síðar í dag.

Búast má við því að í leiðbeiningum ÍSÍ komi fram að börn fædd 2005 og síðar skuli talin með í áhorfendafjölda og að sérsamband (KSÍ) fái til staðfestingar frá félögum sínum áætlaðan fjölda í hverju hólfi / hverju áhorfendasvæði og að í hverju hólfi séu að hámarki 200 manns (börn fædd 2005 og síðar þar með talin).