Íþróttir

Aftur jafntefli hjá Keflavík í Pepsi Max-deild kvenna
Fyrsta mark Keflavíkur í Pepsi Max-deild kvenna í ár. VF-mynd: Hilmar Bragi
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 16. maí 2021 kl. 08:14

Aftur jafntefli hjá Keflavík í Pepsi Max-deild kvenna

Keflavík tók á mót Þrótti í gær á HS Orkuvellinum í þriðju umferð Pepsi Max-deildar kvenna í knattspyrnu. Leiknum lyktaði með jafntefli en Keflavík skoraði sín fyrstu mörk í efstu deild þetta árið.

Keflavík byrjaði leikinn af krafti og á 10. mínútu skoraði Aerial Chavarin fyrsta mark Keflvíkinga í deildinni í ár. Markið kom upp úr hornspyrnu Keflavíkur og atgang í teig Þróttar.

Heimakonur fóru með eins marks forystu inn í hálfleikinn en nokkuð jafnræði var á með liðunum í fyrri hálfleik þótt gestirnir hafi unnið á eftir því sem leið á leikinn.

Þróttarar héldu áfram að bæta í sóknina í seinni hálfleik og þær náðu að snúa leiknum sér í vil með mörkum á 53. og 56. mínútu. Seinna mark Þróttar kom úr hornspyrnu en Þróttur fékk fjöldann allan af hornspyrnum í leiknum sem vörn Keflavíkur sá til að ekkert yrði úr.

Þróttur hélt áfram að sækja og Keflavík varðist vel, það kom svo að því að Keflavík náði góðri skyndisókn á 66. mínútu og Amalía Rún Fjeldsted gerði vel og skoraði eftir sendingu frá Anítu Lind Daníelsdóttur.

Bæði lið fengu tækifæri til að skora sigurmarkið eftir jöfnunarmark Keflavíkur en fleiri urðu mörkin ekki og 2:2 jafntefli niðurstaðan.

Annan leikinn í röð stóð Celine Rumpf vaktina í vörn Keflavíkur og átti einna stærstan þáttinn í að landa stiginu.

Hilmar Bragi Bárðarson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á HS Orkuvellinum og tók meðfylgjandi myndir.

Keflavík - Þróttur // PepsiMax-deild kvenna // 15. maí 2021