Heklan vetrarfundur
Heklan vetrarfundur

Íþróttir

Ætlar að verða best í heimi
Með gullskóinn sem hún fékk fyrir að vera markahæst í Pepsi Max-deild kvenna. VF-mynd: Hilmar Bragi
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 2. janúar 2021 kl. 11:33

Ætlar að verða best í heimi

Sveindís Jane skrifaði undir við eitt besta félagslið í heimi

Flestir eiga eftir að minnast ársins 2020 með hryllingi en það á sennilega ekki við um Sveindísi Jane Jónsdóttur. Afrekalisti hennar á árinu er langur, hún fór á láni frá Keflavík til Breiðabliks og varð Íslandsmeistari með þeim, þá varð hún markahæst og valin sú besta í Pepsi Max-deildinni. Sveindís kom sem nýliði inn í A-landsliðið, fór beint í byrjunarlið þar sem hún stóð þig ótrúlega vel og eru þær komnar í úrslitakeppni EM – og síðast en ekki síst er Sveindís búin að landa samningi við þýska knattspyrnuliðið Wolfsburg, eitt besta félagslið í Evrópu. Blaðamaður Víkurfrétta settist niður með Sveindísi Jane til að fá að kynnast henni aðeins betur.

Samningur við eitt besta lið Evrópu

„Þetta er búið að vera frábært og viðburðarríkt ár fyrir mig og ég er eiginlega bara svolítið þakklát fyrir það,“ segir Sveindís Jane. „Ég á örugglega bara eftir að líta til baka og hugsa geggjað fyrir mig.“

– Svo er það nýjasta, samningur við Wolfsburg – eitt besta lið í Evrópu.

„Já, ég er bara rosalega spennt fyrir þessu. Ég er mjög ánægð og þakklát fyrir þetta tilboð sem ég fékk og ég bara gat ekki neitað þessu.“

– Ferðu beint til Þýskalands?

„Nei, ég verð lánuð í eitt ár til Kristianstad í Svíþjóð. Wolfsburg er bara að tryggja sér mig og vilja lána mig í sterkari deild en hérna á Íslandi. Ég er mjög sátt við þetta skref.“

Fjölskyldan: Anna Sigga Jónsdóttir, systir Sveindísar, Jón Sveinsson, pabbi hennar, Sigurður Ingi Bergsson, unnusti, Sveindís og Eunice Ama Quayson, mamma hennar.

Hefur bara verið í kringum gott fólk

„Ég er uppalin í Keflavík, á íslenskan pabba en mamma mínn er frá Ghana í Afríku. Ég á fimm systkini en engin alsystkini. Bróðir minn og systir, mömmu megin, búa hérna á Íslandi en svo á ég systkini frá pabba sem búa í útlöndum.“

– Hefurðu komið til Ghana?

„Já, ég hef einu sinni komið til Ghana, þá var ég fimm ára svo ég man lítið eftir því. Við fjölskyldan ætluðum þangað í september en faraldurinn eyðilagði það, því miður. Það verður að bíða betri tíma.“

– Áttu mörg skyldmenni þar?

„Já, alveg rosalega mörg – þannig að það hefði verið gaman.“

– Og ertu í sambandi við þetta fólk?

„Nei, ekki ég en mamma heldur góðu sambandi við þau öll.“

– Þú gekkst í skóla hérna og átt þína vini, fannstu aldrei fyrir því að þú værir öðruvísi en aðrir?

„Nei, alls ekki. Þetta er mjög góð spurning en ég hef aldrei lent í neinu svoleiðis og er mjög þakklát fyrir það. Ég hef bara verið í kringum mjög gott fólk og á mjög góðan vinnahóp, svo það hefur aldrei verið neitt vesen.“

Bara fótbolti komist að

– Hvenær byrjaðir þú í fótbolta?

„Ég var níu ára, þannig að ég byrjaði svolítið seint. Ég var ekki að æfa neitt annað, langaði að fara að hreyfa mig eitthvað svo ég fór í fótbolta því ég átti margar vinkonur í fótboltanum.“

– Hefurðu aldrei æft aðrar íþróttir?

„Nei, ég prófaði körfubolta en það var ekki fyrir mig.“

– Hvenær byrjaðir þú svo að spila með meistaraflokki?

„Árið 2015, þá var ég fjórtán ára.“

– Og hefur alltaf spilað með Keflavík þangað til í sumar. Voru það ekki viðbrigði, að prófa eitthvað nýtt?

„Jú, ég var svolítið stressuð en svo þekkti ég svo margar úr Breiðabliki og það hjálpaði svolítið. Þær tóku mér mjög vel, liðsfélagarnir í Breiðabliki.“

– Var ekki sömu sögu að segja af íslenska landsliðinu, var ekki gott að koma inn í hópinn þar?

„Jú, það var aðeins stærra skref fannst mér. Ég var aðeins stressaðri þegar ég var að spila fyrsta leikinn með landsliðinu – en svo eru liðsfélagarnir þar líka alveg geggjaðir, góðir karakterar og fyrirmyndir.“

Sveindís Jane átti frábæra innkomu í landsliðið. Mynd: Fótbolti.net

Leiðist að hlaupa

– Hvernig ertu að haga æfingum núna á þessum Covid-tímum?

„Þetta er búið að vera svolítið fjölbreytt. Þegar það hefur verið samkomubann og liðið ekki náð að æfa saman höfum við fengið styrktarprógram og hlaupaprógram frá styrktarþjálfaranum okkar, þannig að það hefur verið nóg að gera þótt það séu ekki æfingar með liðinu. Þannig að við förum bara út að hlaupa og tökum styrktaræfingar heima.“

– Er ekki erfitt að halda einbeitingu, bara ein að æfa?

„Jú, ég er líka þekkt fyrir að vilja ekki hlaupa mikið. Mér finnst ekki gaman að fara út að hlaupa eða skokka með engan bolta hjá mér. Þannig að þetta hefur verið svolítið erfitt en svo þarf maður að vera þolinmóður og halda áfram að æfa til að ná góðum árangri.“

– Hugsaður mikið út í mataræði?

„Ekki beint en ég reyni að borða hollt. Ég er ekkert að skrifa niður matardagbók eða neitt svoleiðis, ég reyni að borða vel og fæ mér bara að borða ef ég er svöng. Það eiginlega bara svolítið þannig.“

– Þannig að það eru nammidagar á laugardögum.

„Já, ég tek alveg svoleiðis daga. Ég pæli ekki mikið í því.“

Sveindís og Sigurður útskrifuðust úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja í vor, þau stefna á háskólanám í Þýskalandi þegar fram líða stundir.

Á kærasta sem er til í að elta hana hvert sem er

– Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér?

„Ég lít hana bara björtum augum. Þetta er stórt skref sem ég er að fara að taka núna. Ég er spennt og svolítið stressuð í leiðinni – en það er bara gott stress.“

– Og þú átt kærasta, er hann til-búinn að elta þig hvert sem er?

„Já, hann er það. Sem ég er líka rosalega þakklát fyrir. Það gerir þetta aðeins auðveldara, að þurfa ekki að fara ein út. Já, hann er tilbúinn að fara hvert sem er – sem er mjög gott fyrir mig.“

– Er ekki rétt að þið útskrifuðust bæði sem stúdent síðasta vor?

„Jú, það er hárrétt.“

– Og hyggið þið á frekara nám?

„Já, okkur langar báðum í háskóla. Við finnum okkur eitthvað í Þýskalandi, ætlum að taka aðeins lengri pásu úti í Svíþjóð áður en við lærum eitthvað í Þýskalandi – vitum bara ekki alveg hvað. Það kemur bara með tímanum held ég.“

– Þannig að Sveindís Jane veit ekki hvað hún ætlar að verða þegar hún verður stór.

„Nei, bara alls ekki. Ég er alveg tóm í hausnum en ég finn eitthvað – vonandi. Það verður eitthvað að taka við þegar ég hætti í boltanum,“ segir afreksíþróttamaðurinn Sveindís Jane Jónsdóttir að lokum en hún heldur af landi brott í byrjun nýs árs á vit nýrra ævintýra.