Íþróttir

Á annað þúsund blakiðkendur keppa í Reykjanesbæ 25.-27. apríl
Miðvikudagur 24. apríl 2019 kl. 11:25

Á annað þúsund blakiðkendur keppa í Reykjanesbæ 25.-27. apríl

Þann 25.-27. apríl næstkomandi stendur blakdeild Keflavíkur fyrir gríðarlega stóru verkefni hér í Reykjanesbæ. Þessa daga verður 44. Öldungamót Blaksambands Íslands haldið í fyrsta skiptið hér í bæ en mótið er haldið í samstarfi við blakdeild Þróttar í Reykjavík sem hefur reynslu af skipulagningu slíkra móta.

Mótið ber nafnið Rokköld 2019 sem er vel við hæfi þar sem það er haldið í Rokkbænum sjálfum. Öldungamótið í blaki er eitt af stærstu íþróttamótum landsins ár hvert og eru þátttakendur um 1.400 sem koma alls staðar að af landinu. Um 165 karla- og kvennalið mæta og er mótið fyrir 30 ára og eldri. Vel skipulögð skemmtidagskrá er í boði fyrir þátttakendur alla keppnisdaga. Langflestir þátttakendur gista í bænum frá 24.-28. apríl og munu á þeim tíma án efa nýta sér alla þjónustu og afþreyingarmöguleika sem Reykjanesbær hefur upp á að bjóða.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Mikill vöxtur hefur verið í blakíþróttinni hér á landi undanfarinn áratug en eflaust eru ekki margir sem vita að blak hefur verið spilað í Keflavík frá því skömmu eftir að Íþróttafélag Keflavíkur var stofnað árið 1969. Lengi vel voru leikmenn aðallega kennarar en fyrir sex árum tóku nokkrir áhugamenn um blakíþróttina sig saman og stofnuðu blakdeild Keflavíkur. Á þeim árum hefur deildin þroskast og dafnað og hefur barna- og unglingastarfið vaxið samhliða því.

Mikill metnaður hefur verið lagður í Öldungamót undanfarinna ára og allt kapp verður lagt á að framkvæmd mótsins fari vel fram þetta árið þannig að upplifun okkar gesta af Reykjansbæ verði sem jákvæðust. Biðjum við því íbúa Reykjanesbæjar taka vel á móti keppendum og einnig hvetjum við íbúa til að kíkja á gleðina sem blakinu fylgir. Leikirnir verða spilaðir í dúkalagðri Reykjaneshöll og Blue-höllinni alla keppnisdagana og en úrslitaleikir verða spilaðir í Ljónagryfjunni 27. apríl.

Guðrún Jóna Árnadóttir
Formaður blakdeildar Keflavíkur