Optical Studio
Optical Studio

Íþróttir

9 Íslandsmeistaratitlar og þrjú heimsmet
Mánudagur 11. nóvember 2019 kl. 11:39

9 Íslandsmeistaratitlar og þrjú heimsmet

Sundfólkið Íþróttabandalags Reykjanesbæjar stóð sig afar vel á Íslandsmótinu í sundi í 25 metra laug um síðustu helgi. Sundfólk ÍRB vann sex titla og til þriggja titla á Íslandsmóti fatlaðra sem haldið var samhliða. Samtals 9 Íslandsmeistaratitila og þrjú heimsmet sem Már Gunnarsson setti.

Már varð Íslandsmeistari í 50, 100 og 200m baksundi og setti heimsmet í flokki S11 (flokki blindra) í öllum þremur sundunum á ÍM fatlaðra.

Karen Mist Arngeirsdóttir var Íslandsmeistari í 50, 100 og 200m bringusundi.

Eva Margrét Falsdóttir varð Íslandsmeistari í 400m fjórsundi, hennar fyrsti Íslandsmeistaratitill. Hún fékk silfur í 200m bringusundi og setti nýtt telpnamet. Þá fékk hún brons í 100m bringusundi og í 200m fjórsundi.

Gunnhildur Björg Baldursdóttir varð Íslandsmeistari í 200m flugsundi og fékk silfur í 100m flugsundi.

Fannar Snævar Hauksson varð Íslandsmeistari í 100m flugsundi, hans fyrsti Íslandsmeistartitill og fékk brons í 50 m flugsundi.

Aron Fannar fékk brons í 400m fjórsundi, hans fyrstu verðlaun á Íslandsmóti.

Kári Snær Halldórsson fékk brons í 200m bringusundi, hans fyrstu verðlaun á Íslandsmóti.

Kvennasveit ÍRB fékk silfur í 4 x 100m fjórsundi.

Þrír sundmenn náðu lágmörkum á Norðurlandameistaramótið sem fram fer í Færeyjum 29. nóv - 01. des.

„Þetta er mjög flottur árangur hjá okkar fólki og nýir ungir afreksmenn að stíga fram. Framtíðin er björt hjá ÍRB,“ segir Steindór Gunnarsson, þjálfari hjá ÍRB.