Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

„Ykkar umhyggja og umgjörð fer heim með hverjum einasta nemanda að loknum skóladegi“
Fimmtudagur 11. mars 2021 kl. 11:13

„Ykkar umhyggja og umgjörð fer heim með hverjum einasta nemanda að loknum skóladegi“

Hugur fólks er hjá Grindvíkingum í þeim jarðhræringum sem verið hafa síðustu daga og vikur. Falleg kveðja barst frá starfsfólki Grunnskólans í Þorlákshöfn til starfsfólks Grunnskólans í Grindavík:

Kæra starfsfólk Grunnskólans í Grindavík.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Það fer ekki framhjá okkur hér í Þorlákshöfn að starfsumhverfi ykkar við Grunnskólann í Grindavík hefur um margt verið mikil áskorun undanfarið. Við höfum jú öll staðið í allskonar tilfæringum og breytingum vegna sóttvarnaraðgerða yfirvalda undanfarið ár, en til stórrar viðbótar hafið þið þurft að standa í stafni og taka á ykkur mikið álag vegna jarðhræringanna á Reykjanesinu síðustu daga og vikur sem ekki sér fyrir endann á.

Það er mikið álag að vera við kennslu og starfa í grunnskóla þegar slíkar hræringar ganga yfir. Það þarf að halda ró sinni og framar öllu halda ró barnanna, skapa aðstæður þannig að þeim líði vel, og gera skóladaginn eins eðlilegan og hægt er ásamt því að vera alltaf viðbúin að tryggja öryggi þeirra eftir fremstu getu.

Þetta er án efa mjög slítandi og erfitt verkefni sem þið standið í allan daginn um þessar mundir og ekki víst að allir geri sér grein fyrir því hversu mikilvægt ykkar starf er í heildarmyndinni. Ykkar umhyggja og umgjörð fer heim með hverjum einasta nemanda að loknum skóladegi og skilar sér án efa inn á heimili margra Grindvíkinga.

Því langaði okkur, starfsfólk Grunnskólans í Þorlákshöfn, að senda ykkur okkar innilegustu kveðjur. Það er svo sem lítið annað sem við getum gert ykkur til handa, en við hvetjum ykkur áfram og erum svo sannarlega á kantinum ef það er eitthvað sem við getum gert til aðstoðar.“

Með stuðnings- og nágrannakveðjum,
Starfsfólk Grunnskólans í Þorlákshöfn.