Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Fréttir

„Fengum þetta eldgos beint í fangið“
Þriðjudagur 23. mars 2021 kl. 01:17

„Fengum þetta eldgos beint í fangið“

- Björgunarsveitirnar starfað stanslaust frá gosbyrjun

Frá því að eldgosið í Geldingadölum hófst á föstudagskvöld hefur Björgunarsveitin Þorbjörn, ásamt öðrum sveitum af svæðinu, verið að störfum stanslaust.

„Fólk skiptist á að fara að sofa og vaktirnar eru langar. Verkefni okkar í kringum svona eldgos eru aðallega tvíþætt. Í fyrsta lagi nýtum við þekkingu okkar og tækjabúnað til þess að aðstoða vísindamenn frá hinum ýmsu stofnunum við rannsóknir. Þessar rannsóknir hjálpa þessu sama fólki að átta sig betur á því hvað er í gangi og hvar hætturnar leynast. Í öðru lagi erum við að aðstoða Lögregluna á Suðurnesjum við ýmis verkefni. Verkefnin eru t.d. þau að upplýsa fólk við gosstaðinn um gasmegnun, hjálpa til við lokanir á leiðum og svo framvegis,“ segir í pistli á fésbókarsíður björgunarsveitarinnar.

Public deli
Public deli

Þá segir í pistlinum:

„Það er einfaldlega þannig að við fengum þetta eldgos beint í fangið og á stað sem er mjög óaðgengilegur. Þangað liggja hvorki gönguleiðir né vegslóðar sem gerir þetta verkefni mun flóknara fyrir okkur. Ofan á þetta hefur verið mjög hvasst og leiðinlegt veður.

Á meðan við höfum verið að ná utan um ástandið hefur fólk í þúsundatali lagt leið sína á svæðið. Okkur þykir það mjög skiljanlegt og við vildum að við gætum tekið betur á móti öllum. Í gærkvöldi fór svo allt í skrúfuna og fólki gekk illa að komast frá eldgosinu sem endaði með fjölda örmagna fólks sem þurfti á aðstoð okkar að halda. Við vildum óska þess að staðan væri betri og viljum koma því á framfæri hér með að við björgunarsveitarfólk erum einfaldlega sjálfboðaliðar sem hlaupa undir bagga með ýmsum aðilum þegar á reynir. Við tökum ekki ákvarðanir um lokanir né skilgreind hættusvæði, stofnanir og lögregla gera það.“