Fréttir

Vogamenn gráta póstmanninn
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
þriðjudaginn 28. apríl 2020 kl. 22:15

Vogamenn gráta póstmanninn

Íbúar í Vogum á Vatnsleysuströnd gráta póstmanninn sem séð hefur um að koma pósti inn á heimilin í bænum. Hilmar Haukur Friðriksson mun vinna sinn síðasta dag sem póstmaður í Vogum á morgun, miðvikudaginn 29. apríl.

Hilmar Haukur skrifar færslu á síðuna „Vogar - fallegi bærinn okkar“ á fésbókinni og segist þar flytja sorgarfréttir. Morgundagurinn sé sá síðasti í póstburði hjá honum í Vogum og hann hafi reynt allt til að stöðva þetta og fá að vera áfram í Vogum, en það hafi ekki tekist. Þetta sé ekki eitthvað sem hann hafi viljað.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Þið hafið tekið mér ótrúlega vel hérna í Vogunum og vil ég þakka kærlega fyrir það,“ skrifar Hilmar Haukur í færslunni.

Fjölmörg ummæli hafa verið skrifuð við færslu Hilmars og ljóst að íbúar í Vogum eru að missa góðan mann

„Við höfum aldrei upplifað eins góða þjónustu með þig í fararbroddi það verður mikil missir að missa þig elsku vinur. Ég mótmæli þessu hér með og krefst þess að þú verðir hér áfram,“ skrifar einn sem þakkar góða þjónustu.

Annar skrifar: „Hver á þá að koma með allt aliexpress draslið mitt til mín?“.

„Leitt að heyra að það sé verið að færa þig gegn þínum vilja. Grindvíkingar eru heppnir að fá þig vinur. Takk fyrir frábæra þjónustu! Vona að þínir yfirmenn séu meðvitaðir um hversu flottur starfsmaður þú ert,“ skrifar einn og annar bætir við: „Takk fyrir frábæra þjónustu við okkur bæjarbúa. Þú átt heiður skilinn fyrir traustan og ábyrgan póstburð í öllum veðrum og alla daga. Gangi þér vel á nýja staðnum og vonandi gera yfirmenn þínir sér grein fyrir því hversu dýrmætur starfsmaður þú ert“.

Hilmar Haukur mun byrja að bera út póstinn í Grindavík í næsta mánuði og miðað við ummælin sem hann fær í Vogum þá eru Grindvíkingar að fá toppmann í póstburðinn.