Fréttir

Vinnuvernd 101 í boði á ensku
Föstudagur 11. september 2020 kl. 10:07

Vinnuvernd 101 í boði á ensku

Nýjasti skóli Keilis, Vinnuverndarskóli Íslands, hefur að undanförnu unnið að því að auka við námsframboð á ensku. Skólinn hefur á árinu boðið upp á vinsælt námskeið Vinnuvernd 101 um grundvallaratriði sem stuðla að öryggi og vellíðan starfsfólks, og er nú hægt að sækja námið einnig á ensku. Þetta er í fyrsta skipti sem slíkt námskeið er í boði á ensku hérlendis. Námskeiðið er kennt í fjarnámi og er hægt að hefja nám hvenær sem er og vinna á sínum eigin hraða.

Nýja námskeiðið nefnist Occupational Health and Safety 101 og samanstendur af sex fyrirlestrum, samtals um 45 mínútur. Að þeim loknum taka þátttakendur próf á netinu.

Með þessari auknu þjónustu vonast forsvarsmenn skólans eftir því að geta svarað aukinni eftirspurn eftir námsefni fyrir innflytjendur eða starfsfólk af erlendu bergi brotnu. Námskeiðin henta einnig vel einstaklingum sem vilja styrkja stöðu sína á vinnumarkaði eða fyrir vinnustaði þar sem unnið er að breiðri þekkingu starfsfólks á almennri þekkingu á vinnuvernd og öryggsimálum.

Vinnuverndarskólinn býður fyrirtækjum upp á sérkjör og getur sett upp námskeið sérstaklega fyrir hvert fyrirtæki fyrir sig eftir frekara samkomulagi. Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Kjerúlf, forstöðumaður Vinnuverndarskóla Íslands, á gudmundurk@keilir.net. Upplýsingar um námsframboð skólans má nálgast á www.vinnuverndarskoli.is