RNB 17 júní
RNB 17 júní

Fréttir

Vill að lækkun sviðsstjóra verði dregin til baka - gerði ekki athugasemd í bæjarráði
Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Reykjanesbæ.
Sunnudagur 8. desember 2019 kl. 14:44

Vill að lækkun sviðsstjóra verði dregin til baka - gerði ekki athugasemd í bæjarráði

Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Miðflokksins lagði fram tillögu á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar 3. desember um að 8,9% launahækkun til sviðsstjóra yrði dregin til baka. Tillagan var fell af meirihlutanum sem benti á að hún hafi ekki gert athugasemd í umræðum um málið við sviðsstjóra. 

„Mig setti hljóða þegar ég fór að rýna fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2020 og sá allan þennan kostnaðarauka við stjórnsýslusviðið. Hækkunin er upp á rúmar 40 milljónir á milli ára. Það sem kom mér mest á óvart var að laun sviðsstjóra voru hækkuð um 8,9% eða 122.000 þúsund krónur og eru orðin 1.420.000 krónur á mánuði. Finnst meirihlutanum eðlilegt að hækka laun þeirra með einu pennastriki. Þvílíkt dómgreindarleysi og þessi ákvörðun er algerlega úr takti við samninga á almennum vinnumarkaði. Ég tel þessar hækkanir hafa verið brot á yfirlýsingu sem Samband íslenskra sveitarfélaga gaf út í tengslum við lífskjarasamninginn í vor en þar er meðal annars talað um verðstöðugleika, að hækka ekki gjaldskrár og að laun hækki ekki umfram 3,8%. Ekki má gleyma að víða eru samningar lausir við viðsemjendur Reykjanesbæjar. Væri ekki nær að meirihlutinn semji strax við starfsfólk sitt og hækka alla um 8,9 %? Ég bara spyr? Samningarnir hafa verið lausir í rúmlega 250 daga. Þurfti virkilega að hækka þessa embættismenn? Ég velti fyrir mér hvort að sviðsstjórarnir sem eru nýbyrjaðir að vinna hjá stjórnsýslunni hafi ekki samþykkt þau laun sem um var rætt þegar þeir voru ráðir. Eða var búið að lofa þeim hækkun strax? Tveir sviðsstjórar eru nýbyrjaðir, annar er búinn að starfa í einn og hálfan mánuð og hinn í 3 mánuði. Jú, umbunum þeim fyrir vel unnin störf og hækkum laun þeirra um 8,9%. Við stöndum frammi fyrir auknu atvinnuleysi hér á svæðinu sem hefur í för með sér minni útsvarstekjur. Gerir meirihlutinn sér ekki grein fyrir því?
Meðan við erum undir Eftirlitsnefnd um fjármálum sveitarfélaga þá er embættisbáknið aukið með tilheyrandi kostnaði þrátt fyrir að rafræna eigi stjórnsýsluna. Þetta er alveg með ólíkindum og við íbúar Reykjanesbæjar eigum að sætta okkur við álögur sem eru í hæstu hæðum og eru að sliga íbúana.
Mér hefur verið tíðrætt um systkinaafslátt af skólamat og hef komið með nokkrar tillögur varðandi útfærslur á þeirri hugmynd þar sem það þótti of dýrt að veita gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Öllum hugmyndum mínum í þá veru hefur alfarið verið hafnað. Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir að þriðja og fjórða barn fái gjaldfrjálsar skólamáltíðir og því ber að fagna. Við eigum að gera betur. Að veita barni tvö 50% afslátt af skólamat þá yrði kostnaðurinn um 23,5 milljónir á ári og fengju 1.229 börn afslátt af 2.164 börnum. Ef veittur yrði 25% afsláttur af barni tvö þá yrði kostnaðurinn 11,7 milljónir á ársgrundvelli. Væri ekki nær að lofa barnafjölskyldum að njóta 25% afsláttar af skólamat í stað þess að eyða 10 milljónum í hækkun á launum sviðsstjóra á ársgrundvelli sem er þvert á lífskjarasamningana.
Ætlar meirihlutinn virkilega að hundsa hörð viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar. Hefur meirihlutinn engar áhyggjur af því að samningar eru t.d. lausir hjá 260 félagsmönnum VSFK.
Ég kem því hér með þá tillögu að bæjarstjórn samþykki að dregnar verið til baka þær launahækkanir til sviðsstjóra um 8.9% eða um 122.000 krónur á mánuði.“

Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki.

Til máls tóku Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Friðjón Einarsson, Baldur Þ. Guðmundsson, Margrét Þórarinsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Gunnar Þórarinsson og Jóhann Friðrik Friðriksson.

Forseti bar upp tillögu Margrétar Þórarinsdóttur og var hún felld með 6 atkvæðum Samfylkingar, Framsóknarflokks og Beinnar leiðar gegn 5 atkvæðum Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Frjáls afls.

Til máls tók Friðjón Einarsson (S) og lagði fram eftirfarandi bókun:

„Vegna tillögu bæjarfulltrúa Miðflokksins sem nú hefur verið felld vill meirihluti Beinnar leiðar, Framsóknarflokks og Samfylkingar taka fram:
Þessi breyting er ekki framkomin að frumkvæði meirihlutans heldur vegna beiðni viðkomandi starfsfólks um samræmingu á launum til jafns við starfsfólk í öðrum sveitarfélögum.

1. Beiðni sviðsstjóra var tekin fyrir utan dagskrár á fundi bæjarráðs þann 24.október og formanni ráðsins falið að eiga viðræður við sviðsstjóra. Fulltrúi Miðflokksins sat þann fund. Eftirfarandi var síðan bókað á fundi bæjarráðs þann 31. október:

Bókun 31. október

4. Kjaramál (2019100102)

Bæjarráð samþykkir framlagðar tillögur varðandi kjaramál sviðsstjóra og forstöðumanna og formanni falið að ganga frá málinu.

Fulltrúi Miðflokksins lýsti engri skoðun í málinu á þeim fundi. Fundargerðin var síðan samþykkt á bæjarstjórnarfundi þann 5. nóvember síðastliðinn af öllum bæjarfulltrúum, þar með talinn bæjarfulltrúi Miðflokksins.

2. Laun sviðsstjóra voru fyrir endurskoðun kr. 1.298.560 með allri yfirvinnu og að meðtöldum orlofs- og desemberuppbótum. Á Akureyri sem er jafnstórt sveitarfélag eru 9 sviðsstjórar í samanburði við þá 6 yfirmenn sem um ræðir hjá Reykjanesbæ sem fá greitt skv. launakjörum sviðsstjóra. Laun sviðsstjóra á Akureyri eru kr. 1.424.000 og þeir fá síðan greiddar orlofs- og desemberuppbætur.

Í Hafnarfirði eru laun sviðstjóra kr. 1.521.000 og til viðbótar orlofs- og desemberuppbætur. Því er ljóst að sviðsstjórar í Reykjanesbæ eru þrátt fyrir þessa hækkun, lægri en sviðsstjórar þessara sveitarfélaga og reyndar margra annarra. Það má því halda því fram, að í raun sé hér um leiðréttingu að ræða.

3. Umræddir starfsmenn voru ekki teknir með í starfsmat það sem unnið var hjá Reykjanesbæ á síðasta ári og færði starfsfólki Reykjanesbæjar launahækkun sem nam 6% að meðaltali.

4. Umfang sviða Reykjanesbæjar hefur verið að aukast verulega þrátt fyrir að sviðum hafi ekki fjölgað og því hefur álag á umrædda starfsmenn aukist í samræmi við það, án þess að til hafi komið aukagreiðsla vegna yfirvinnu.

5. Í einhverjum tilfellum var það orðið þannig að undirmenn sviðsstjóra voru komnir upp fyrir þá í launum eftir kjarasamningsbundnar hækkanir.

Við teljum að ekki sé á neinn hallað þó að þessi ákvörðun hafi verið tekin og áfram verður markvisst unnið að því að bæta starfsumhverfi starfsfólks Reykjanesbæjar og tryggja samkeppnishæfni sveitarfélagsins.“

Guðbrandur Einarsson (Y), Friðjón Einarsson (S), Eydís Hentze Pétursdóttir (S), Styrmir G. Fjeldsted (S), Jóhann Friðrik Friðriksson (B) og Díana Hilmarsdóttir (B).

Fundargerðirnar samþykktar 10-0, bæjarfulltrúi Miðflokks sat hjá.