Fréttir

Vilja rífa Orlik við norðurgarð Njarðvíkurhafnar
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 4. október 2019 kl. 07:44

Vilja rífa Orlik við norðurgarð Njarðvíkurhafnar

Vegna óvæntra aðstæðna sem upp komu við förgun rússneska togarans Orlik hefur verið sótt um breytingu á undanþágunni varðandi staðsetningu framkvæmdar. Nú er óskað eftir því að fá að rífa togarann á þeim stað þar sem honum hefur verið komið fyrir eða við norðurgarð Njarðvíkurhafnar. Framkvæmdalýsing er að mestu leyti óbreytt en þó eru breytingar á uppsetningu mengunarvarnarbúnaðar, segir í umsókn um starfsleyfi til Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Fulltrúar Umhverfisstofnunar komu í eftirlit þann 3. september, skoðuðu starfssvæðið og skipið og áttu fund með fulltrúa heilbrigðiseftirlits Suðurnesja og hafnarstjóra Reykjaneshafnar. Einnig hefur stofnunin fundað með Hringrás í Reykjavík. Umhverfisstofnun telur að niðurrif skipsins sé hafið við norðurgarð Njarðvíkurhafnar. Undanþága frá starfsleyfi gildir fyrir niðurrif við Skipasmíðastöð Njarðvíkur. Stofnunin ákvað að stöðva niðurrif á skipinu þar til tilskilinna leyfa hefur verið aflað.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Upphaflega var gert ráð fyrir að rífa skipið á athafnasvæði Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur. Þegar hefja átti undirbúning kom í ljós að þar er klöpp en samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum var talið að botninn væri möl og hægt væri að dýpka rennuna. Skipið er stórt og þungt og ristir of djúpt til að hægt sé að koma því að stöðinni. Ákveðið var að undirbúningur niðurrifs færi fram við norðurgarð í Njarðvíkurhöfn, þar sem að skipið yrði létt. Ekki var talið öruggt að vinna í og við skipið þar sem það stóð áður við bryggju. Hætta var á að skipið sykki og mikil áhætta að hafa það lengur við bryggjuna.

Þann 31. ágúst var skipið fært að norðurgarði en þá var stórstraumsfjara, sem var forsenda þess að hægt væri að færa skipið. Útbúin hefur verið renna við hlið norðurgarðs og tímabundinn garður settur meðfram skipinu til að hægt sé að komast að því báðum megin frá. Hafist var handa við að létta skipið. Byrjað var á að fjarlægja lausamuni og síðan átti að fjarlægja spilliefni og asbest. Því næst stóð til að fjarlægja allt stál ofan þilfars, brú, gálga og annan búnað. Til stóð að fleyta skipinu að tilbúnum garði við Skipasmíðastöð Njarðvíkur þegar búið væri að létta það.

Sett hefur verið flotgirðing aftan við skipið. Unnið er að því að fjarlægja lausamuni og spilliefni úr skipinu. Frekari vinna við skipið mun bíða niðurstöðu í leyfismálum. Vinna við tímabundinn garð hjá Skipasmíðastöð Njarðvíkur er ekki hafinn.

Framkvæmdin á þeim stað þar sem skipið er núna staðsett er að mestu sambærileg þeirri sem lýst var í matsskyldufyrirspurn Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur frá júlí 2019. Munurinn felst í staðsetningu inni í höfninni og því að mengunarvarnarbúnaður verður settur upp tímabundið á hafnarkantinum. Núverandi staðsetning hefur þann kost að vera inni í höfninni og minni öldugangur er þar en við Skipasmíðastöðina, segir í umsókninni til ráðuneytisins.

Framkvæmdin sem um ræðir er tímabundin og felur í sér að rússneski togarinn Orlik verði rifinn þar sem hann stendur nú við norðurgarð í Njarðvíkurhöfn. Mengunarvarnir eru til staðar til að uppfylla kröfur sem gerðar eru til starfseminnar, s.s. olíuskilja, geymslur fyrir hættuleg efni og viðbúnaður vegna mengunaróhappa. Gert er ráð fyrir að niðurrif togarans taki tvo til þrjá mánuði.

Nú er beðið eftir svari Umhverfis- og auðlindaráðuneytis við beiðni um breytingu á undanþágu en ráðuneytið hefur óskað umsagnar Reykjaneshafnar og óskar eftir að höfnin svari eigi síðar en 7. október nk.