Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Fréttir

Vilja endurskoða nýtt leiðarkerfi strætó
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 29. janúar 2020 kl. 11:42

Vilja endurskoða nýtt leiðarkerfi strætó

Íbúar í Reykjanesbæ með undirskriftalista. Óánægja með nýtt leiðakerfi

Margrét Sanders, oddviti Sjálfstæðisflokks, lagði fram bókun á fundi í bæjarstjórn Reykjanesbæjar þar sem hún leggur til að nýtt leiðakerfi í strætó verði endurskoðað og að stofnaður verði samráðshópur til að skoða málið og ná fram sátt. Íbúar í Dalshverfi hafa efnt til undirskriftalista vegna óánægju með nýja leiðarkerfið. Guðbrandur Einarsson, oddviti Beinnar leiðar lagði til að málið yrði sent til bæjarráðs og var það samþykkt með 9 af 11 atkvæðum.

Bókunin hljóðar svo:

 „Sjálfstæðisflokkurinn, Frjálst afl og Miðflokkurinn telja að nauðsynlegt sé að eiga meira samráð við notendur strætóþjónustu vegna þeirra umfangsmiklu breytinga sem nýtt leiðarkerfi hefur í för með sér.

Public deli
Public deli

Þessir flokkar leggja því eftirfarandi til:

  1. Settur verði á stofn samráðshópur, skipaður tveimur fulltrúum frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja (FS) og tveimur fulltrúum frá umhverfis- og skipulagssviði.
  2. Settur verði á stofn samráðshópur, skipaður tveimur fulltrúum foreldra barna úr Innri-Njarðvík, sem sent hafa erindi inn til bæjarins með gagnrýni á nýja leiðarkerfi strætó, og tveimur fulltrúum frá umhverfis- og skipulagssviði.

Hlutverk samráðshópanna er að kanna mögulegar lausnir vegna þeirrar gagnrýni sem komið hefur fram á nýtt leiðarkerfi strætó svo að sátt geti skapast um þessa mikilvægu þjónustu í bæjarfélaginu. Tillögur þessara tveggja hópa skulu liggja fyrir 31. janúar 2020.“

Talsverð umræða varð um málið á bæjarstjórnarfundi en að lokum var samþykkt að vísa málinu til frekari skoðunar í bæjarráði.

Íbúar í Dalshverfi fóru af stað með undirskriftarlista vegna þeirra breytinga sem gerðar voru á strætókerfinu um áramót (sjá hér að neðan). Þeir fjölluðu um málið á Facebook-síðunni „Reykjanesbær - gerum góðan bæ betri“. Sigvaldi Lárusson, lögreglumaður og íbúi, skrifaði eftirfarandi:

„Talsverðar óánægjuraddir eru líka í Keflavík vegna þessara breytinga. Aðalbreytingin hér er sú að „hringurinn“ svokallaði er tekinn út og er það okkur íbúum óskiljanlegt með öllu.

Þar sem ekkert hefur heyrst varðandi óskir okkar um strætómálin, þrátt fyrir fjöldan allan af skrifum á Facebook og sendingum á gáttina og á netfang Reykjanesbæjar, þá ákvað ég að stofna þennan undirskriftarlista til að halda þessu máli vakandi. Endilega skráið ykkur á listann og sýnum það í verki að okkur er ekki sama og að við viljum að hlustað sé á óskir okkar og barna okkar. Það að skrá sig tekur ekki nema örskamma stund.

Við verðum að halda þessu máli á lofti þar sem ekkert virðist vera að gerast. “