Fréttir

Viðbragðsaðilar á Suðurnesjum fá langþráðan æfingabúnað
Fimmtudagur 14. mars 2019 kl. 10:05

Viðbragðsaðilar á Suðurnesjum fá langþráðan æfingabúnað

Brunavarnir Suðurnesja og Félag sjúkraflutningamanna í Grindavík fengu á dögunum afhentan nýjan þjálfunarbúnað að gjöf sem er einn sá fullkomnasti sinnar tegundar hér á landi. Bláa Lónið gaf búnaðinn, dúkku á unglingsstigi, sem ætlað er að veita þjálfun og kennslu í sérhæfðri öndum og endurlífgun á einstaklingi með fjöláverka. 
 
„Við erum búin að bíða býsna lengi eftir að fá svona dúkku. Kostnaðurinn er gríðarlegur en búnaðurinn er ómetanlegur og stórt skref fram á við í þjálfun á mannskap,“ sagði Eyþór Rúnar Þórarinsson, varðstjóri Brunavarna Suðurnesja, við afhendingu gjafarinnar. 
 
Viðbragðsaðilar á Suðurnesjum hafa fyrir tilkomu búnaðarins þurft að sækja þjálfun í bráðahermi í Reykjavík sem hefur bæði kostað tíma og fyrirhöfn. „Ávinningurinn er mikill af því að fá búnaðinn til okkar. Það er afar brýnt að viðhalda þekkingu og færni viðbragðsaðila og þessi búnaður gerir þeim kleift að framkalla raunveruleg tilfelli og æfa þau sem alvarlegri eru og koma sjaldnar upp, sem við höfum ekki getað áður. Það skiptir öllu máli að vera búinn að æfa sig nokkrum sinnum á ári þegar kallið kemur.“  
 
Félögin tvö munu í kjölfarið veita völdum starfsmönnum Bláa Lónsins þjálfun í sérhæfðri öndunaraðstoð og endurlífgun þar sem umræddur búnaður verður notaður.

Guðrún Lísa Sigurðardóttir, öryggis- og gæðastjóri Bláa Lónsins, segir það mikils virði þar sem öflug þjálfun, gott samstarf við viðbragðsaðila og fumlaus viðbrögð starfsfólks komi í veg fyrir slys og bjargi mannslífum. „Öryggi gesta og starfsmanna hafa alla tíð verið Bláa Lóninu hjartans mál. Neyðarviðbrögð starfsfólks í erfiðum aðstæðum hafa verið til fyrirmyndar og við erum afar þakklát fyrir gott samstarf við utanaðkomandi aðila. Bláa Lónið leitar stöðugt leiða til að efla þekkingu í neyðarviðbrögðum og erum við því bæði ánægð og þakklát fyrir að geta eflt samstarfið enn frekar.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024