Fréttir

Verkefni tilbúin á Suðurnesjum í sögulegu atvinnuleysi
Mánudagur 25. maí 2020 kl. 10:16

Verkefni tilbúin á Suðurnesjum í sögulegu atvinnuleysi

„Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi frábiðja sér þras um verkefnin og krefjast þess að aðilar snúi bökum saman og sýni einhug í að koma þessum verkefnum í gang hið fyrsta,“ segir í ályktun sem samþykkt var á stjórnarfundi Samtaka atvinnurekenda á Suðurnesjum þann 24. maí 2020.

Þar segir einnig:
„Eins og öllum er kunnugt um er mikil óvissa uppi í þjóðfélaginu og í heiminum öllum um þessar mundir vegna alheimsfaraldursins COVID-19.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þessi óvissa hefur valdið gríðarlegum rekstrarerfiðleikum hjá mörgum fyrirtækjum hér á landi sem brugðist hafa m.a. við með uppsögnum á starfsfólki og sér alls ekki fyrir endann á því.

Atvinnuleysi á landinu hefur því stóraukist síðasta mánuðinn, sérstaklega hér á Suðurnesjum. Stefnir í að atvinnuleysi hér á Suðurnesjum nái sögulegum hæðum á næstu vikum en er í dag ríflega 28% í Reykjanesbæ og er nauðsynlegt fyrir samfélagið að sporna við þeirri þróun, m.a. með framkvæmdum sem skapa störf tímabundið og til lengri tíma.

Ýmis verkefni hafa verið í undirbúningi hér á svæðinu sem m.a. innviðauppbygging í Helguvík til að styrkja höfnina til að taka á móti verkefnum er varða leit og björgun, einnig verkefni er tengjast norðurslóðum. Þar myndu koma þrír aðilar að uppbyggingunni og er Ísland eitt af þeim. Jafnframt myndi hafnaraðstaðan styðja við öryggishlutverk Íslands á Norðurslóðum og skapa möguleika til meiri uppbyggingar á því sviði.

Samhliða þeirri uppbyggingu skapast við þær hafnarframkvæmdir möguleikar fyrir nýja starfsemi á svæðinu. Einnig eru stór verkefni á öryggissvæðinu sem myndu tengjast Helguvíkurhöfn og má þar nefna stór vöruhús sem á að byggja og mætti flýta þar framkvæmdum en með tilkomu þeirra myndi hafnaraðstaðan í Helguvík styrkjast verulega vegna vöruflutninga til og frá þeim. Þessi starfsemi er talin skapa um það bil 60 störf fyrir utan afleidd störf. Þessi verkefni eru atvinnuskapandi, bæði á framkvæmdatíma og til lengri tíma. Reykjaneshöfn er tilbúin til framkvæmda strax eins og hefur komið fram í ályktun frá stjórn Reykjaneshafnar sem SAR tekur heilshugar undir.

Samtök atvinnurekenda frábiðja sér þras um verkefnin og krefjast þess að aðilar snúi bökum saman og sýni einhug í að koma þessum verkefnum í gang hið fyrsta og er SAR tilbúið að koma að þessum verkefnum ef þess er óskað sama á hvaða stigi það er.“