Fréttir

Vantar aðeins sex bæjarbúa til að verða stærri en Akureyri
Mánudagur 7. janúar 2019 kl. 09:47

Vantar aðeins sex bæjarbúa til að verða stærri en Akureyri

Ef fram fer sem horfir þá verður Reykjanesbær orðinn fjórða stærsta sveitarfélag Íslands á næstu dögum því um áramót munaði aðeins fimm manns á íbúastærð Reykjanesbæjar og Akureyrar, sem hefur vermt fjórða sætið í um áratuga stærð. Íbúum Reykjanesbæjar fjölgar hraðar en íbúum Akureyrar og því gæti Reykjanesbær verið orðinn stærri strax um næstu mánaðamót. Þetta kemur fram í tölum Þjóðskrár Íslands um íbúafjölda í ársbyrjun.
 
Íbúar í Reykjanesbæ voru 18.922 þann 1. janúar sl. Bæjarbúum fjölgaði um 40 frá 1. desember sl. þegar þeir voru 18.882. Þá voru íbúar Reykjanesbæjar 17.732 þann 1. desember 2017 og því hefur íbúum bæjarins fjölgað um 1190 á þrettán mánuðum.
 
Grindvíkingum fjölgar einnig hratt. Þeim fjölgaði um 32 frá 1. des. 2018 til 1. janúar 2019. Þeir voru 3.429 í byrjun árs en voru 3.326 þann 1. des. 2017 og hefur því fjölgað um 103 á þrettán mánuðum.
 
Íbúum í Vogum fækkaði um einn milli mánaða og voru 1.287 í ársbyrjun. þeir voru 1.269 þann 1. desember 2017 og hefur því fjölgað um 18 á þrettán mánuðum.
 
Í Suðurnesjabæ voru íbúar 3.480 þann 1. janúar sl. Þeim fækkaði um 2 frá 1. des 2018 en þann 1. desember 2017 voru íbúar sameinaða sveitarfélagsins 3.384 og hefur því fjölgað um um 96 á þrettán mánuðum.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024