Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Útlendingastofnun fær engin jákvæð svör
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
mánudaginn 17. júní 2019 kl. 23:41

Útlendingastofnun fær engin jákvæð svör

Velferðarráði hugnast ekki hugmynd Útlendingastofnunar að stækka þjónustuhóp þeirra í Reykjanesbæ enn frekar.

Útlendingastofnun er í viðræðum um húsnæði á Ásbrú sem væri þá viðbót við það sem fyrir er á svæðinu. Það þýðir að 170 manns gætu verið í þjónustu Útlendingastofnunar á Ásbrú með möguleika á fjölgun í allt að 250 manns.

Þetta kemur fram í tölvupósti frá Útlendingastofnun sem lagður var fyrir fund velferðarráðs Reykjanesbæjar á dögunum. Í póstinum er óskað hafi verið eftir því við sveitarfélög að auka við þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd en engin jákvæð svör hafi borist. Einnig hafi verið leitað að hentugu húsnæði á suðvesturhorninu.

Í viðbrögðum velferðarráðs Reykjanesbæjar við póstinum segir: „Velferðarráð hefur ekki legið á skoðunum sínum varðandi málefni einstaklinga sem koma til landsins í leit að alþjóðlegri vernd.

Skýr stefna sveitarfélagsins er sú að uppfylla þjónustusamning sem gerður hefur verið við Útlendingastofnun um að sinna þjónustu við fjölskyldur eða einstaklinga í viðkvæmri stöðu, allt að 70 manns, og gera það vel. Í þeirri þjónustu hefur tekist nokkuð vel að aðlaga einstaklinga að samfélaginu og veita stuðning í nærumhverfi á meðan einstaklingarnir bíða eftir úrlausn sinna mála.

Á sama tíma hefur Útlendingastofnun skort húsnæði til að taka á móti fleiri einstaklingum og því þurft að leigja húsnæði m.a. í Reykjanesbæ þar sem Útlendingastofnun sér um daglegan rekstur þar sem dvalið geta allt að 100 manns í einu. Þeir einstaklingar tengjast þjónustu sveitarfélagsins ekki á nokkurn hátt.

Velferðarráði hugnast ekki sú hugmynd Útlendingastofnunar að stækka þjónustuhóp þeirra í sveitarfélaginu enn frekar og hefur áður leitað til stofnunarinnar og mælt með aðkomu fleiri sveitarfélaga.

Mikilvægt er að kynna vel fyrir öðrum sveitarfélögum hver samfélagslegi ávinningurinn er af því að sinna þessari þjónustu. Fulltrúar Reykjanesbæjar eru tilbúnir að taka þátt í þeirri vinnu“.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024