Fréttir

Útför Grétars Einarssonar frá Útskálakirkju í dag
Frá útför Grétars Einarssonar frá Útskálakirkju í dag. VF-myndir: Hilmar Bragi
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
föstudaginn 27. september 2019 kl. 19:16

Útför Grétars Einarssonar frá Útskálakirkju í dag

Útför Grétars Einarssonar fv. knattspyrnumanns var gerð frá Útskálakirkju í dag. Fjölmennt var í útförinni og bekkir Útskálakirkju þétt setnir. Þá var hægt að fylgjast með útsendingu frá útförinni í Miðgarði í Gerðaskóla og á síðunni Garðmenn og Garðurinn á Facebook.

Þorsteinn Grétar Einarsson var fæddur 11. október 1964 í Silfurtúni í Garði. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 16. september 2019. Grétar giftist Erlu Dögg Gunnarsdóttur, f. 19. ágúst 1967, þann 30. júní 2008. Börn Grétars og Erlu eru Sunna Rós, f. 14. janúar 1987, hennar maki er Svavar Ingi Lárusson, f. 30. desember 1994, sonur þeirra er óskírður Svavarsson, f. 31. ágúst 2019. Ásgeir, f. 4 ágúst 1995, og Árni Gunnar, f. 7. janúar 1997, kærasta hans er Olivia Anna Canete Apas, f. 28. ágúst 2001.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Í minningarorðum um Grétar segir: Grétar bjó í Garðinum alla sína tíð og starfaði við fiskvinnslu hjá afa sínum og frænda á sínum yngri árum. Svo fór hann að vinna við smíðar hjá Ásgeiri Kjartanssyni frænda sínum og vann hjá honum samfellt í mörg ár og eftir að hann stofnaði sína eigin fiskverkun árið 1995 greip hann alltaf í hamarinn hjá Ása í gegnum tíðina þegar minna var að gera í fiskhúsinu. Hann hafði einnig unnið við pípulagnir síðasta vetur hjá Sigurði mági sínum.

Frá unga aldri átti knattspyrna hug hans allan og spilaði hann með nokkrum félögum, eins og Víði, Keflavík, FH og Grindavík ásamt því að spila þrjá leiki með A-landsliðinu. Hann æfði og spilaði með Old Boys Keflavík/Víðir síðustu ár sem var félagsskapur og urðu þeir Íslandsmeistarar oftar en einu sinni. En stærsta hluta hjarta hans áttu þó Víðir og Grindavík þar sem hann spilaði lengst á sínum ferli.

Sr. Sigurður Grétar Sigurðsson jarðsöng. Organisti var Arnór Vilbergsson. Arnar Dór Hannesson og Lísa Einarsdóttir sungu einsöng.

Hér má sjá upptöku frá útförinni á síðunni Garðmenn og Garðurinn á Facebook.