Fréttir

Unnið að stafrænni smiðju á Suðurnesjum
Mynd úr stafrænni smiðju eða FabLab.
Mánudagur 31. október 2022 kl. 14:45

Unnið að stafrænni smiðju á Suðurnesjum

Bæjarráð Reykjanesbæjar leggur til að Halldóra Jónsdóttir, aðstoðarmaður bæjarstjóra, verði fulltrúi Reykjanesbæjar í verkefninu Stafræn smiðja á Suðurnesjum. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskóla-, iðnaðar og nýsköpunar, lýsti því í viðtali við Víkurfréttir á dögunum að hún ætlaði að styðja við uppsetningu á stafrænni smiðju eða Fab Lab á Suðurnesjum.

Áhugahópur um stafræna smiðju á Suðurnesjum óskar eftir því að sveitarfélög, í samstarfi við hagsmunaaðila og ríki komi að stofnun stafrænnar smiðju á Suðurnesjum til að tryggja samkeppnishæfni svæðisins og efla þar nýsköpun og atvinnulíf. Í því skyni verði settur á fót vinnuhópur hagsmunaaðila og fulltrúa sveitarfélaga sem skoði mögulegar útfærslur og rekstrargrundvöll.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Stafrænar Fab Lab-smiðjur eru nýsköpunarsmiðjur sem veita notendum tækifæri til að hrinda hugmyndum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni. Smiðjurnar gefa kost á skapandi námi og auka þekkingu og leikni nemenda, kennara, frumkvöðla og almennings. Stafrænar smiðjur styðja þannig við virka þátttöku og áhuga á verk- og tækninámi í grunn- og framhaldsskólum sem og bætt tæknilæsi.    

Í dag eru starfræktar átta stafrænar smiðjur á landinu og var rekstrargrundvöllur þeirra styrktur og festur í sessi til þriggja ára í mars 2021 með framlagi frá ANR og MRN samtals 84 milljónir króna sem gera um fjórar milljónir frá hvoru ráðuneyti til hverrar smiðju, sem þegar er í rekstri. Rekstrarform smiðjanna eru ólík en að rekstri þeirra koma sveitarfélög og hagsmunaaðilar á hverju svæði. Íbúar á Suðurnesjum eru 29.108 talsins, þar af flestir í Reykjanesbæ, eða 20.298. Svæðið er því með þeim fjölmennari á landinu (utan höfuðborgar) ef undan er skilið Norðurland Eystra (31.161) og Suðurland (32.161). Því er mikilvægt að íbúar á Suðurnesjum fái sömu tækifæri og aðrir landshlutar til að styðja við nýsköpun og efla tæknilæsi.  

Hraðar tæknibreytingar í samfélaginu, oft kenndar við fjórðu iðnbyltinguna, munu hafa mikil áhrif á líf okkar og störf í náinni framtíð og það er mikilvægt að við tökum virkan þátt í þeim tæknibreytingum sem eiga sér stað í heiminum. Stefna og stuðningsumhverfi nýsköpunar þarf því að mynda traustar undirstöður fyrir þróun tækni og atvinnulífs hér á landi, í takt við það sem best gerist í öðrum löndum. Hraðar tæknibreytingar fela einnig í sér margvíslegar samfélagslegar áskoranir. Huga þarf meðal annars að því að tækniþróun leiði ekki til aukinnar aðgreiningar í þjóðfélaginu og að atvinnuþróun tryggi áframhaldandi velferð hér á landi. Nýsköpunarhæfni samfélags, getan til þess að leiða fram góðar hugmyndir og veita þeim í frjósaman farveg verður því sífellt mikilvægari forsenda lífsgæða.

Gert er ráð fyrir að efla stafrænar smiðjur um allt land í Nýsköpunarstefnu Íslands og falla þær undir mörg markmið í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar þar sem jafnframt er lögð áhersla á að efla þurfi frumkvöðlamenningu í skólum. Stafræn smiðja á Suðurnesjum getur tengst frumkvöðlasetri fyrir svæðið og fjarvinnustöð vegna starfa án staðsetningar.

Fyrir verkefninu á Suðurnesjum fara Óskar Birgisson, áhugamaður um stofnun stafrænnar smiðju, Hanna María Kristjánsdóttir, forstöðumaður Þekkingarseturs Suðurnesja, og Dagný Maggýjar, verkefnastjóri Heklunnar, atvinnuþróunarfélags Suðurnesja.