Nettó
Nettó

Fréttir

Tveggja herbergja íbúðir á 20 millj. kr. í nýju fjölbýlishúsi í Reykjanesbæ
Föstudagur 1. mars 2019 kl. 16:11

Tveggja herbergja íbúðir á 20 millj. kr. í nýju fjölbýlishúsi í Reykjanesbæ

-Forsmíðað norskt einingahús reis á hálfu ári í Reykjanesbæ með 2ja, 3ja og 4ra herbergja íbúðum

„Við pöntuðum húsin fyrir sex mánuðum síðan og það er því óhætt að segja að þetta hafi gengið vel. Þetta eru vandaðar íbúðir, framleiddar við bestu aðstæður í Noregi af aðila sem er með áratuga reynslu, þekkingu og sérhæfingu í smíði forsmíðaðra húsa,“ segir Halldór Eyjólfsson, þróunarstóri hjá Klasa ehf. en fyrirtækið býður nú til sölu 2ja, 3ja og 4ra herbergja íbúðir við Móavelli 2 í Reykjanesbæ. 

Opið hús verður laugardaginn 2. mars kl. 13-16. Söluaðili er fasteignasalan Stuðlaberg. Halldór Magnússon, fasteignasali segir að það hafi verið mikil eftirspurn eftir minni íbúðum en þessar eru 48 fm., 83 fm. og 95 fermetrar, 2ja, 3ja og 4ra herbergja. 

Fjölbýlishúsið er forsmíðað timbureiningahús á fjórum hæðum með lyftu. Íbúðirnar eru afhentar fullbúnar með gólfefnum, vatnsúðarakerfi, lýsingu og loftræstikerfi. Ísskápur og uppþvottavél fylgja. Á neðstu hæð er stór sameiginleg geymsla.

Klasi hefur í hyggju að byggja fleiri hús á svæðinu en íbúðirnar henta vel eldra fólki enda eru þær í næsta nágrenni við Nesvelli. Þó geti þær líka verið hentugar til fyrstu kaupa fyrir ungt fólk.

Halldór segir að allur frágangur sé til fyrirmyndar og reynslan af svona fjölbýlishúsum sé afar góð í Noregi. Um sé að ræða umhverfisvænar byggingar en áhersla er á að sú nálgun gangi í gegnum allt ferlið við byggingu og síðan notkun íbúðanna með því að huga að orkusparnaði. Húsin eru byggð innandyra við bestu aðstæður sem eykur gæði og minnkar sóun. Allar íbúðir eru með loftræstikerfi sem eykur loftgæði innanhúss og minnkar líkur á rakaskemmdum. Um mjög spennandi nýjung sé að ræða hér á landi sem hefur þó fengið mikla reynslu í Noregi við sambærilegar aðstæður og eru hér. Norska fyrirtækið Moelven hefur framleitt í meira en 100 ár og hefur því mikla reynslu og þekkingu á þessu sviði.

„Framkvæmdir hafa gengið mjög vel. Staðsetningin er mjög góð þar sem m.a. er stutt er í verslunarkjarna og aðra þjónustu enda á besta stað í Reykjanesbæ,“ segir Halldór Eyjólfsson.

Tveggja herbergja íbúðirnar eru frá kr. 19,9 millj. kr., 3ja herbergja frá 31.9 m.kr. og 4ra herbergja frá 35.9 m.kr.

Í meðfylgjandi myndskeiði hér að neðan má sjá frá byggingu hússins við Móavelli allt frá því að það kom í einingum með skipi. Ljósmyndirnar voru teknar í vikunni.

Halldór Eyjólfsson frá Klasa og Halldór Magnússon frá Stuðlabergi inni í einni íbúðinni.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs